Að beiðni fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna lét yfirkjörstjórn telja greidd atkvæði aftur og hófst talning kl. 17 í Lækjarskóla að viðstöddum tilnefndum fulltrúum flokkanna sem tóku þátt í bæjarstjórnarkosningunum í Hafnarfirði.
Formaður yfirkjörstjórnar upplýsti nú rétt upp úr kl. 22 að endurtalning hafi ekki breytt neinu um niðurstöður kosninganna.
Í Hafnarfirði er hefð fyrir því að telja í 50 atkvæða bunka sem eru síðan taldir og fjölda þeirra atkvæða sem út af stendur bætt við. Þetta hefur þótt bæði örugg og mjög fljótleg enda þaulvanir talningamenn við störf.

Meðal þeirra er Guðlaugur Atlason sem hefur verið við talningu síðan um 1960 eða um 58 ár. Guðlaugur var elsti talningastjóri við síðustu sveitarstjórnarkosningar en hann verður 86 ára í næsta mánuði. Hann var léttur á sér og röggsamur þegar talning var að hefjast í dag en sagði þetta verða síðasta talningin sem hann tæki þátt í og brosti.