fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirEr hættulegt að vera gangandi eða hjólandi í Hafnarfirði?

Er hættulegt að vera gangandi eða hjólandi í Hafnarfirði?

Virðingarleysi áberandi við gatnaframkvæmdir

Það má eflaust spyrja sig hvort framkvæmdaaðilum í Hafnarfirði sé illa við gangandi fólk og hjólandi ef marka má hversu algengt það er að fólki sé hreinlega vísað út á götu þegar framkvæmd er á eða við gangstéttar.

Hver vill sjá barnið sitt ganga á milli bílsins og hrúgunnar?

Framkvæmdasvæði eru illa merkt og stórum atvinnubílum er lagt í almenningsstæði þar sem töluverð umferð gangandi og hjólandi fólks er.

Vegagerðin er með mjög skýrar reglur um merkingar vinnusvæða og hjáleiða til að tryggja öryggi þeirra sem þar vinna og eiga umferð um. Ef slíkar reglur eru til hjá Hafnarfjarðarbæ er sjaldan farið eftir þeim og eftirfylgnin er nær engin ef marka má dæmi sem eru sýnd hér með fréttinni og flest hafa birts hér í Fjarðarfréttum áður.

Á gangstétt við leikskólann Bjarkalund. Ljósmynd: Aðsend.

Ótal dæmi hefur mátt sjá þar sem ökumenn virða rétt gangandi að vettugi og leggja bílum sínum uppi á gangstétt. Sumum finnst það vera tuð að gagnrýna slíkt en í mörgum tilfellum eru þeir að reka gangandi vegfarendur, einnig börn og fólk með barnavagna, út á götu með tilheyrandi hættu.

Ökumaður þessa bíls við Lækjargötu tekur ekki mikið tillit til gangandi vegfarenda. Þarna er þetta algeng sjón.

Ákvæði í lögreglusamþykkt

Í 16. grein lögreglusamþykktar Hafnarfjarðarkaupstaðar segir um aðgerðir vegna framkvæmd:

„Þegar gerður er skurður í gangstétt skal sá sem verkið vinnur sjá um að tryggja öryggi gangandi vegfarenda og annarra, svo sem með því að sjá fyrir göngubrautum og tryggja að vegfarendur séu aðvaraðir um farartálmann, t.d. með ljósum, glitmerkjum o.þ.h. þegar dimmt er. Slík verk skulu unnin þannig að sem minnstur farartálmi verði. Sé nauðsynlegt að loka gangstétt vegna framkvæmda skal hjáleið tryggð og afgirt frá umferð ökutækja innan þéttbýlismarka og annars staðar þar sem umferð er mikil.“

Engin leið merkt fyrir gangandi þegar framkvæmdir stóðu yfir í byrjun árs.

Vörubifreiðum sem eru 5 tonn að leyfðri heildarþyngd eða meira má ekki leggja í íbúðarhverfum

Víða má sjá stóra bíla í íbúðarhverfum bæjarins en um lagningu bíla segir m.a. í 20. grein í lögreglusamþykktinni:

„Bannað er að leggja ökutæki á gangstéttum, opnum svæðum, óbyggðum lóðum og stígum. Lögreglustjóri getur, að fengnum tillögum bæjarstjórnar, veitt undanþágu frá ofangreindu. Vörubifreiðum sem eru 5 tonn að leyfðri heildarþyngd eða meira og fólksflutningabifreiðum sem flytja mega 10 farþega eða fleiri má ekki leggja á götum eða almennings­bifreiðastæðum þ.m.t. almennum bílastæðum í íbúðarhverfum nema þau séu til þess ætluð. Bann þetta gildir einnig um hvers konar vinnuvélar og dráttarvélar án tillits til þunga þeirra.“

Jafnvel í upplandinu er gangandi og hjólandi gert að fara út fyrir vegaslóða eins og hér við Kaldársel.

Algild hönnun

Á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir um algilda hönnun: „Algild hönnun er ferli sem virkjar og styrkir íbúa samfélagsins með því að bæta mannlegan árangur, heilsu, vellíðan og félagslega þátttöku. Algild hönnun gerir lífið auðveldara, heilsusamlegra og vingjarnlegra fyrir alla.“

Með algilda hönnun að leiðarljósi var t.d. göngustígurinn umhverfis Hvaleyrarvatn endurnýjaður en þá er leiðarljós algildrar hönnunar að allir geti nýtt sér göngustíginn að því marki sem aðstæður leyfa án þess að til komi sérstök útfærsla eða hönnun. En hún útilokar ekki hjálpartæki sé þeirra þörf.

Svona má sjá þegar malbikað er ofan á eldra lag. Á veturna getur þetta orðið flughált.

Þá segir á vef HMS: „Grundvallaratriðið er að það er ekki fötlunin eða skerðingin sjálf sem er hindrun heldur er það manngerða umhverfið sem hindrar fólk með fötlun í að geta tekið þátt eða komist um, til jafns við aðra.“

Ætla má að að sama viðhorf eigi að vera í umhverfi okkar á leiðum fyrir gangandi og hjólandi um bæjarfélagið og að aðrir þættir eins og framkvæmdir eða vanvirðing verði ekki til þess að ekki sé hægt að komast leiðar sinnar án þess að setja sig í óþarfa hættu.

Enn er gönguleiðin meðfram nýju Ásvallabrautinni lokuð og ómalbikuð þó engin önnur hindrun sé á henni frá Skarðshlið að hringtorgi við Ásland 4

Illa staðsett vinnusvæði

Vinnusvæði utan lóðar vegna byggingar íbúða á svæði sem skipulagt var sem íþróttasvæði. Vinnubúðirnar skerða mjög aðgengi gangandi og hjólandi.

Við framkvæmdir við íþróttasvæði á Ásvöllum þar sem verið er að byggja 7 fjölbýlishús var leyfi veitt fyrir vinnubúðum vestan við götuna Ásvelli, við end bílastæðis Ásvallalaugar. Er slóði sem kemur í framhaldi af Ásvöllum notaður sem aðkoma að byggingarsvæðinu og lokun sett við enda bílastæðanna sem lokar jafnframt fyrir malbikaða gönguleið meðfram Ásvöllum sem merkt er með grænu á myndinni hér að ofan. Gangandi og hjólandi hafa því þurft að taka á sig krók og ganga eftir leið sem merkt er gul á myndinni og inn á malarstíg meðfram bílastæðunum.

Núverandi aðkoma frá Vallarhverfinu að Ásvöllum.

Ákvarðanir um endurbætur teknar í kjölfar banaslyss

Þarna er greinilega ekki verið að tryggja öryggi gangandi vegfarenda og hjólandi en þetta er fjölfarin leið úr Vallahverfinu að Ásvöllum og miðbænum. RÚV hefur eftir aðalvarðstjóra lögreglunnar í Hafnarfirði að á fundi með bæjaryfirvöldum hafi þau ákveðið að malbika göngustíginn meðfram vestari hlið bílastæðanna og lokað verði fyrir umferð um Ásvelli meðfram vinnusvæðinu. Verður þá aðkoma að bílastæðunum syðst lokað og öll umferð fari um aðkeyrslu gengt aðalinngangi að sundlauginni.

Eru þessar ákvarðanir teknar í kjölfars banaslyss þar sem 8 ára drengur á hjóli varð fyrir steypubíl á bílastæðinu við sundlaugina næst vinnubúðunum.

Hér er lokun á Ásvöllum og misvísandi skilti sem aðeins virkar þegar hliðið er opið.
Eiga vinnutæki og stórir atvinnubílar eitthvað erindi inn á almenningsstæði t.d. við sundlaugar?

Það er hörmulegt að það þurfi slys til að öryggi gangandi og hjólandi verði nægilega tryggt.

Eru íbúar hvattir til að senda inn ábendingar um það sem betur má fara á leiðum gangandi og hjólandi í Hafnarfirði.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2