Kjóadalur, ofan Hvaleyrarvatns, er sennilega líklegasta framtíðarútivistarsvæði Hafnfirðinga. Þarna eru miklir möguleikar til uppbyggingar, örskammt frá byggð, fyrir hvers kyns útivist að vetri sem að sumri.
Á árum áður var dalurinn nýttur af fjáreigendum og kartöflugarðar bæjarbúa voru þar í hlíðunum. Undanfarna rúma tvo áratugi hefur dalurinn verið notaður sem beitarsvæði fyrir hross og var fyrirtækið Íshestar með dalinn í notkun leigulaust með samningi við Hafnarfjarðarbæ.
Eingöngu fyrir hæfilega áburðargjöf
Í samningnum voru ákvæði um að einungis mátti aka þangað á ákveðinn stað hrossaskít, en þó ekki meira en nýttist við hæfilega áburðargjöf.
Undanfarin ár hefur færst í aukana að miklu magni af hrossaskít hefur verið ekið þangað og dæmi eru um að stórir vörubílar hafi flutt þangað hrossaskít í miklum mæli sem ekki var notaður í áburðargjöf heldur dreift á mjög litlu svæði í allt að eins metra þykkt. Þá var málið skoðað hjá Hafnarfjarðarbæ og Heilbrigðiseftirlitinu sem staðfesti að ákveðnar reglur giltu um förgun hrossaskíts.
Ekkert virðist þó hafa verið að gert þó hrossaskíturinn hafi verið settur á svæði þar sem það var ekki heimilað.
Í lok árs 2017 sótti fyrirtæki í hestaleigu um að fá dalinn á leigu og vildi borga 40 þús. kr. á ári. Í framhaldinu voru allir samningar um beit í bæjarlandinu teknir til skoðunar en þá var samningurinn við Íshesta í raun fallinn úr gildi enda Íshestar þá gjaldþrota og nýtt fyrirtæki með sama nafni en aðra kennitölu starfandi.
Dalurinn leigður til beitar fyrir 200 þús. kr. á ári
Árið 2018 var samþykkt að auglýsa beit í Kjóadal og að gjald yrði 200 þús. kr. á ári og að sömu reglur ættu að gilda og áður, m.a. um áburðargjöf, girðingar og fl. en ákvæðin ætti að setja í samninga. Í framhaldi var samið við Íshesta um nýtingu á 80% af svæðinu og Hraunhesta um 20%.
Áfram hefur miklu magni af hrossaskít verið ekið á svæðið og virðist sem reglum sé ekki fylgt nú frekar en áður. Ekki hefur heldur verið greitt fyrir vatn á svæðið en það var tekið á svig við reglur, en þó með vitund starfsmanns Vatnsveitu Hafnarfjarðar á sínum tíma, úr heimtaug í landi St. Georgsgildisins í Hafnarfirði og lagt ofanjarðar án samráðs við félagið.
Skv. upplýsingum frá Heilbrigðiseftirlitinu hafa engar umsóknir um förgun á hrossaskít á þessu svæði verið afgreiddar hjá embættinu.