fbpx
Þriðjudagur, janúar 21, 2025
HeimFréttirErindisbréf skipulags- og byggingarráðs frá 2011 hefur ekki hlotið staðfestingu

Erindisbréf skipulags- og byggingarráðs frá 2011 hefur ekki hlotið staðfestingu

Kæru Hestamannafélagsins Sörla vísað frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurðaði þann 30. mars sl. í kæru þar sem Hestamannafélagið Sörli kærði þá ákvörðun umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar frá 2. maí 2019 um að synja beiðni kæranda um að lagður verði af göngu­stígur í Gráhelluhrauni.

Umræddur göngustígur löngu kominn og er vinsæll göngustígur og skv. eldri skipulagi lá hann í gegnum svæði Sörla. Hins vegar var fyrirhugað að tengja þennan stíg við nýjan hjóla- og göngustíg sunnan við Kaldárselsveg til að hann færi ekki inn á svæði Sörla. Þá þveraði stígurinn eðlilega reiðstíg með fram Kaldárselsvegi og Kaldárselsveginn sjálfann. Þetta sætti stjórn Sörla sig ekki við og óskaði eftir því að stígurinn yrði aflagður en því var hafnað að umhverfis- og framkvæmdaráði.

Úrskurðarnefndin vísaði máli Sörla frá og kom það ekki á óvart en ástæðan kom mönnum í opna skjöldu.

Að hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að umdeildur göngu­stígur sé í samræmi við Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2015-2030 og því hafi erindinu verið synjað af umhverfis- og framkvæmdaráði Hafnarfjarðar.

Ráðhús Hafnarfjarðarbæjar

Formsatriðum í stjórnsýslunni ekki framfylgt

Í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd [í þessu tilviki skipulags- og byggingarráði] fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því.

Framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðargreiðslu mála þarf að koma fram í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins skv. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í gildi er samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar, þar sem kemur fram að bæjarstjórn staðfesti erindisbréf fyrir ráð, nefndir og stjórnir þar sem kveðið sé á um hlutverk, valdsvið og starfshætti þeirra í samræmi við lög, reglugerðir og almennar samþykktir bæjarstjórnar.

Samkvæmt 41. gr. samþykktarinnar er ráðum þeim sem upp eru talin í 1.-5. tölul. A-liðar 39. gr. heimilt að afgreiða mál á verksviði þeirra á grundvelli erindisbréfs skv. 40. gr. án staðfestingar bæjarstjórnar, ef í fyrsta lagi lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn því og í öðru lagi að þau varði ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið sé á um í fjárhagsáætlun og þau víki ekki frá stefnu bæjarstjórnar. Undir þetta ákvæði fellur skipulags- og byggingarráð.

Í úrskurðinum segir að ekki sé að sjá að aðrar heimildir til fullnaðarafgreiðslu nefnda bæjarins sé þar að finna. Staðfest erindisbréf sé til staðar fyrir skipulags- og byggingarráð þar sem segir í 6. gr. að ráðið fari m.a. með mál sem heyri undir skipulagslög nr. 123/2010.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála tók út aðstæður í Gráhelluhrauni með fulltrúum bæjarins og fleirum. Ljósm.: Skógræktarfélag Hafnarfjarðar.

Lagt fram til kynningar

Í 7. gr. erindisbréfsins er síðan m.a. tekið fram að samþykktum, reglugerðum og gjaldskrám sem hljóta eiga staðfestingu ráðherra, skuli vísað til bæjarstjórnar, ásamt afgreiðslu erinda sem kveðið sé á um í skipulagslögum. Fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá 27. ágúst 2019 var lögð fram til kynningar í bæjarstjórn 4. september það ár.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga skal samþykkt um stjórn sveitarfélags send ráðuneytinu til staðfestingar og skv. 1. tölul. 1. mgr. 18. gr. sömu laga skal sveitarstjórn ræða samþykktir og aðrar reglur sem samkvæmt lögum eiga að hljóta staðfestingu ráðherra við tvær umræður.

Samþykktir sem staðfestar eru af ráðherra skulu vera birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað nr. 15/2005. Af því leiðir að erindisbréf sem ekki hefir hlotið framangreinda málsmeðferð getur ekki verið viðhlítandi heimild fyrir framsali á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála.

Erindisbréf skipulags- og byggingarráðs frá 2011 hefur ekki hlotið staðfestingu

Erindisbréf skipulags- og byggingaráðs var undirritað af bæjarstjóra 7. desember 2011 en hvorki liggur fyrir að það hafi hlotið staðfestingu ráðherra né að það hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Valdheimildir skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar voru því bundnar við þær heimildir sem fram koma í lögum og samþykkt sveitarfélagsins, enda hafði sveitarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar ekki framselt það vald skv. 2. máls. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga, sbr. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga.

Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga teljast ályktanir nefnda sveitarfélags tillögur til sveitarstjórnar hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða í samþykkt um stjórn sveitar­félagsins. Umdeild ákvörðun skipulags- og byggingarráðs telst samkvæmt framangreindu tillaga til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um afgreiðslu máls.

Málinu vísið frá þar sem lögleg ákvörðun hafði ekki verið tekin

Með vísan til þessa liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður slík ákvörðun ekki borin undir úrskurðarnefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt af þar til bæru stjórnvaldi. Var kærunni af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Bæjarstjórn staðfesti svo ákvörðun ráðsins

Á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku staðfesti svo bæjarstjórn endurtekna ákvörðun skipulags- og byggingarráðs sem nú vísaði málinu formlega til staðfestingar hjá bæjarstjórn.

Þá fyrst er í raun grundvöllur fyrir kæru og spurning hvort hestamannafélagið kæri á ný sem gæti orðið til þess að aðskilnaður göngustígs og reiðstígs tefjist enn frekar.

Tengdar fréttir

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2