Rithöfundurinn Eyrún Ósk Jónsdóttir fagnaði útgáfu nýrrar ljóðabókar, Stórsæ stjarnfræðileg fyrirbæri og önnur málefni hjartans, með því að halda ljóðakaffi og listasýningu heima í stofu hjá sér um síðustu helgi.
Í bókinni yrkir Eyrún um föðurmissi og afstæði tíma og rúms. En líka um það sem yfirstígur tíma og rúm, kærleikann, fegurðina og ástina og þá töfra lífsins sem mikilvægt er að við förum ekki á mis við. „Þetta var virkilega skemmtilegt. Ég hef einnig verið að gera klippimyndir og notaði tækifærið og setti upp smá listasýningu í leiðinni. Hengdi upp myndir á veggi og hurðar bara heima. Svo fengu allir sem litu inn persónulegan upplestur, smákökur og kakó. Þetta er í annað sinn sem ég geri þetta og það er magnað að í bæði skiptin dreifðist hópurinn fullkomlega þannig að þegar einn fór og stóll losnaði mætti næsti gestur 5 mín síðar, svo ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að koma öllum fyrir,“ segir Eyrún.
Bókin er einlæg og hjartnæm og í henni er meðal annars að finna þetta fallega ástarljóð:
Það er enginn
sem ég myndi frekar vilja
vera í sóttkví með
en þú
ég elska þig
á fordæmalausan hátt
„Ljóðabækurnar mínar einkennast flestar af sterku þema og er það í raun ekki viljandi, heldur er sannleikurinn sá að ég verð algerlega gagntekin af hugmyndum og þá fæðast ljóðin hvert á fætur öðru svo að heil ljóðabók um sama efni verður bara ósjálfrátt til. Ég missti pabba minn fyrir ári síðan og fór þá mikið að velta fyrir mér sorginni út frá hugmyndum um tíma og rúm, og hvernig eini staðurinn þar sem við getum yfirstígið tíma og rúm og hitt fyrir alla þá sem við höfum elskað á sama stað og sama tíma, er bara í kærleikanum. Í hjartanu. Þar er eini staðurinn þar sem tímaferðalög eru möguleg. Í ástinni sjálfri. Bókin hverfist um þessa hugmynd.“
Hvað er raunveruleikinn
annað en kærleikur?
minning um ást
og vináttu?
að mætast
og elska
finna tilgang
í hlátri barns að leika
eða annars hugar brosi
og léttum kossi að morgni dags
sameiginlegu hugðarefni
ást sem gengur í kynslóðir
kærleikurinn þverar
tíma og rúm
Eyrún hefur sannarlega ekki setið auðum höndum í ár en auk þess að senda frá sér þessa ljóðabók hefur hún og leikhópurinn hennar Listahópurinn Kvistur sent frá sér þrjú hlaðvarpsleikrit. „Þetta eru allt ný íslensk leikrit. Það nýjasta Hjónakapall er eftir móður mína, Eygló Jónsdóttur, en hún samdi einnig leikritið sem við gerðum þar á undan Kakkalakkar. Ég skrifaði síðan fyrsta leikritið sem við sendum frá okkur í ár Leikkonan og fíflið. Svo erum við búin að taka upp eitt verk til viðbótar. Jóla-morðgátu-leikrit eftir Gunnar Jónsson og fer það í loftið rétt fyrir jólin. Það er nú skemmtileg saga hvernig hann skrifaði það verk, því allur vinahópurinn var kallaður saman í morðgátu-matarboð tvisvar sinnum, þar sem farið var alla leið í búningum og skreytingum og svo spiluðum við morðgátuspil til þess að safna hugmyndum fyrir uppbyggingu leikritsins. Það má því segja að ansi margir hafi komið að rannsóknarhlutanum fyrir jólaleikritið okkar.“
Þá er þetta heldur ekki fyrsta myndlistarsýningin sem Eyrún heldur í ár, því hún hélt einnig listasýningu, Tvíktakt, í Litla galleríinu á Strandgötunni í sumar þar sem hún blandaði saman klippimyndum sínum við ljóða-radd-innsetningu sem hljómaði um rýmið. Ljóðið af sýningunni gaf hún einnig út sem handskrifuð myndskreytt bók sem kom aðeins út í 100 eintökum.
Þá hefur Eyrún einnig verið að skrifa og þróa barnaleikrit fyrir Þjóðleikhúsið sem verður frumsýnt þar á næsta ári, auk þess sem leikritið hennar Requiem verður sýnt í Gaflaraleikhúsinu á nýju ári.
„Ég hef bara gríðarlega þörf til að vera að skapa eitthvað. Það skiptir ekki máli hvað það er, eða hvaða listform verður fyrir valinu hverju sinni, það er bara sköpunin sjálf sem kallar á mig. Auðvitað er líka gaman að fá að deila því sem maður skapar með öðrum og eiga samræður við fólk í gegnum listsköpunina, þá myndast líka töfrar.“
Við óskum Eyrúnu Ósk til hamingju með bókina og bendum á að hægt er að finna hlaðvarpsleikritin á facebook síðu Listahópsins Kvistur, sem og á Spotify, Soundcloud og Youtube með því að setja inn leitarorðið „Listahópurinn Kvistur“.