fbpx
Þriðjudagur, desember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirFallegustu garðarnir verðlaunaðir og Lóuás er stjörnugata

Fallegustu garðarnir verðlaunaðir og Lóuás er stjörnugata

Snyrtileikinn 2021

Viðurkenningar voru í dag veittar fyrir fallegustu og snyrtilegustu garðana í Hafnarfirði en það er Hafnarfjarðarbær sem veitir viðurkenningarnar.

Nokkuð margar ábendingar bárust frá bæjarbúum að sögn Berglindar Guðmundsdóttur á umhverfis- og skipulagssviði Hafnarfjarðarbæjar um fallegasta garðinn, og fallegustu lóðina við fyrirtæki.

Umhverfis- og framkvæmdaráð hefur ásamt starfsmanni sviðsins verið á ferð og flugi í sumar til þess að skoða vandlega allar tilnefningarnar ásamt því að koma sjálfir með tillögur að viðurkenningum.

„Hafnarfjörður er fallegur bær og mikið um fagra garða og snyrtilegar lóðir og gaman er að sjá hversu bæjarbúar er iðnir og áhugasamir um að gera fallegt i kringum sig og vonandi munu þessar viðurkenningar hér í dag, hvetja aðra bæjarbúa til dáða,“ segir Berglind.

Fallegustu og snyrtilegustu garðarnir:

Heiðvangur 50, eigendur: Gréta Kjartansdóttir og Óli S. Ólafsson

Heiðvangur 50

„Þessi garður er ákaflega fallegur og hefur verið það um árabil. Það er svo ánægjulegt að geta kíkt yfir hekkið og séð þennan fallega garð í Norðurbænum. Ótrúlegt magn fjölbreyttra plantna, bæði í beði og í steinabeði.

Alveg sama hvert litið er, fjölbreytnin og litaskrúðið blasir alls staðar við. Öll beð vel hirt svo og grasflötin, allir kantar klipptir og skornir.

Hér er snyrtimennskan í fyrirrúmi og hafa eigendur komið fyrir gróðurhúsi og má sannarlega segja að þarna er mikil garðyrkjuáhugi fyrir hendi.

Fallegur garður í grónu hverfi í bænum.“

Erluhraun 8, eigandi: Valgerður Rósa Loftsdóttir

Erluhraun 8

„Þessi garður er búin að vera fallegur um árabil og hefur örugglega fengið áður viðurkenningu.

Aðkoman svo falleg með stífklipptu alparifsi og fallegri brekku þar sem hraungrýti nýtur sín svo vel með blómstrandi steinbrjótum og þykkblöðungum.

Ævintýralegur bakgarður með stórri grasflöt þar sem beðin skera sig út í flötinni með svo ótrúlegt úrval af blómstrandi plöntum og runnum.

Erluhraunið hefur alltaf verið einstaklega snyrtileg og falleg gata í eldri hverfum bæjarins og hefur fengið ótalmargar viðurkenningar fyrir garða sína. Gatan hefur verið valið stjörnugata hér á árum áður.“

Öldugata 16, eigendur: Jón Tryggvason og Signý Eiríksdóttir

Öldugata 8

„Þessi garður stendur við Hamarinn og myndar skemmtilega tengingu við náttúruvættið þar sem búið er að fella nokkur grenitré og búa til rými og sýn.

Það sem gerir þennan garð öðruvísi en aðra garða er efnisvalið, en það er mikið úr endurunnu efni. Gróft og flott efni í samspili við nýtt.

Hér blandast gamli tíminn og hinn nýi, þar sem hin ósnerta náttúra fær notið sín. Hér hafa eigendur farið óhefðbundnar leiðir sem gerir garðinn forvitnilegan og skemmtilegan.“

Klettahraun 5, eigandi: Katrín Sveinsdóttir

Klettahraun 5

„Það sem vekur athygli við þennan garð er að hann sést svo vel frá götunni, það er hægt að staldra við og njóta þessa gamla snyrtilega garðs á leið sinni um Klettahraunið.

Þessi garður er búinn að vera fallegur um áraraðir og höfðu fyrrum íbúar lagt línurnar um hversu fallegur þessi garður er og hefur núverandi eigandi tekið við garðhrífunni og haldið honum vel við. Gamaldags og sjarmerandi garður.“

Klettahraun 21, eigendur: Ásta Gunna Kristjánsdóttir og Steinarr Steinarrsson

Klettahraun 21

„Þessi garður hefur verið fallegur um árabil og örugglega fengið áður viðurkenningu.

Það er svo gaman þegar garðarnir eru opnir og við vegfarendur fáum að njóta. Hér er ævintýraljómi yfir öllu og snyrtimennskan í hámarki. Grasflötin vel sleginn og beðin skera sig út í fletinum.

Gróðurhúsið gerir dvalarsvæðið svo rómantískt og skemmtilegt með seríum og heitri kamínu. Það er örugglega mjög huggulegt að vera boðið á pallinn á síðkvöldi. Þetta er stemningsgarður.“

Lækjargata 11, eigendur: Guðmundur Bjarnason og Arnheiður Fanney

Lækjargata 11

„Þessi garður hefur verið fallegur um árabil. Hann er mjög sýnilegur frá Öldugötu og við gatnamótin við Lækjargötu er svo gaman að horfa að húsinu þar sem hús og garður blasir við og vekur eftirtekt.

Hérna sannast það enn og aftur hversu mikilvægt það er að opna garða sína fyrir umhverfinu. Þarna fá allir að njóta.

Lækurinn er hluti af garðinum sem gefur honum svo fallegan og ævintýralegan blæ. Þarna er snyrtimennskan í fyrirrúmi og allt viðhald með miklum sóma.“

Vesturbraut 6, eigendur: Hrund Einarsdóttir og Sverrir Örn Þorvaldsson

Vesturbraut 6

„Hérna var útsendarinn farinn að gægjast í bakgarða. Þarna á Vesturbrautinni er fallegur bakgarður við fallegt gamalt rautt hús og vakti strax athygli. Beðin upphækkuð á flötinni og rómantískur andblær var yfir þessum garði. Mjög gott samspil á milli húss og garðs.“

Hverfisgata 45, eigandi: Ingimar Haraldsson

Hverfisgata 45

„Við erum búin að fylgjast nokkuð lengi með þessum garði og núna er kominn tími á viðurkenningu. Yndislega fallegur og rómantískur garður þar sem hvert einasta smáatriði fær notið sín. Það er einnig ánægjulegt hversu húsinu er sérlega vel viðhaldið.

Þarna fær náttúran sitt hlutverk og undirstrika grasflatirnar úfið hraunið. Þarna er greinilega mikill garðáhugi í gangi og allavegana hlutir frá gamalli tíð eiga sinn stað í garðinum, skemmtileg dvalarsvæði. Það er ákveðin dulúð yfir þessum garði.“

Norðurbraut 21, eigendur: Kolbrún Erla Kjartansdóttir og Auðunn Guðni Hjaltason

Norðurbraut 21

„Aftur er útsendarinn farinn að kíkja í bakgarða. Falleg grasflötin og gróin gróðurbrekkan var svo snyrtileg og smekkleg í þessum litla garði og hún vakti strax athygli. Þarna er nokkur hæðarmunur en hann er leystur á mjög smekklegan og einfaldan hátt. Þegar inn var komið var vel staðsettur pallur við húsið, allt passaði svo vel saman og stærðir og form unnu svo vel saman.

Það sést hér að garðarnir þurfa ekki að vera stórir til að vera fallegir. Hver fermetri vel nýttur.“

Snyrtilegasti frágangur við fyrirtæki

Hafrannsóknarstofnun, Fornubúðum 5

Fornubúðir 5

„Það er svo ánægjulegt að geta veitt viðurkenningu fyrir snyrtimennsku á hafnarsvæði. Þarna hefur Hafrannsóknarstofnun reist hús og lagt metnaði í að frágangur á lóð sé til fyrirmyndar.

Þarna eru allir fletir í skala við húsið, bryggjan orðin mjög falleg með bekkjum þar sem hægt er að setjast.

Hér er ásýndin að bænum okkar yndisleg. Það er í raun og veru núvitund að setjast þarna niður og njóta.

Það eru alltof fáir sem gera sér grein fyrir hversu stórkostlegt útsýni er frá þessum stað og mælir nefndin með að farin sé kvöldganga um þetta svæði því það kemur sannarlega á óvart.

Það mættu fleiri taka Hafró sér til fyrirmyndar á þessu svæði í bænum.“

Arkitektastofan Batteríið og Björgunarsveit Hafnarfjarðar, Hvaleyrarbraut 32

Hvaleyrarbraut 32

„Það er ekki oft sem tvö fyrirtæki á hafnar- og athafnasvæðum í bænum fá viðurkenningu á sama tíma. Þarna á Hvaleyrarbrautinni vekur strax athygli frágangur lóðar fyrir framan inngang hússins.

Þarna hefur lóðin verði hönnuð með það í huga að vera viðhaldslítil en á sama tíma smekkleg og tekur vel á móti þeim sem ganga að húsinu og er í senn dvalarrými þar sem starfsmenn geta komið sér fyrir á palli fyrir framan húsið og notið sólar á móti suðri.

Fururnar hafa tekið vel við sér ásamt gróðri í gróðurkerjum. Þarna er ánægjulegt að staldra við, fá sér sæti og horfa yfir Hvaleyrarlón því útsýnið er ekki af verri endanum. Það mættu fleiri taka sér frágang á þessu svæði til fyrirmyndar og vonandi eru báðar þessar viðurkenningar hvatning fyrir fyrirtækin í bænum.“

Stjörnugata

Lóuás eystri

Stjörnugata ársins er Lóuás 11-21 og 18-32 sem er austari hluti Lóuáss. Þar er samstaða íbúa mikil og metnaður að hafa fallega götu.

Lóuás – Stjörnugata 2021
Merkið var þegar komið á götuna áður en útnefningin var tilkynnt.

Heiðursverðlaun

Ný Krýsuvíkurkirkja nýhífð á grunn sinn

Krýsuvíkurkirkja fékk heiðursverðlaun Snyrtileikans 2021.

Myndir frá afhendingunni í Höfðaskógi

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2