fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirFerhyrndir hrútar í Krýsuvíkurrétt

Ferhyrndir hrútar í Krýsuvíkurrétt

Sauðfjárbúskapur í sögulega lágmarki í Hafnarfirði

Krýsuvíkurréttir voru á laugardaginn en þar rétta frístundabændur á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu í réttum við Suður­strandaveg. Aðeins tveir frí­stunda­bændur eru eftir í Hafnarfirði með tæp 20 fjár auk lamba en í heild var réttað um 170 fjár sem er með allra minnsta móti. Þegar réttin var vígð árið 2009 voru um 700 fjár dregið í dilka en réttin var samstarfsverkefni Hafnar­fjarðarbæjar, Álftaness, Garðabæjar og Vegagerðarinnar.
Síðasta fjárhúsið á að víkja fyrir vegi

Guðmundur Jónsson í Lækjarbotnum er annar þeirra en féð hefur hann í húsi við Kaldárselsveginn en skv. skipu­lagstillögum að nýrri Ásvallabraut eiga fjárhúsin að víkja fyrir gatnamótum. Guðmundur segist aðeins vera með 7 kindur og einn hrút og tekur áformum um gatnamót fálega, mörg ár séu liðin frá því hælar voru settir niður í kringum húsin en ekkert gert. Er synd ef fjárhúsin færu og áhugaverðara væri að hafa fjárhús næstum inni í miðjum bæ og skapa tækifæri fyrir æskuna að fylgjast með sauðburði og jafnvel gömlum búskaparháttum. Hafnarfjarðar á sterka sögu sauðfjárbúskapar og má finna merki þess víða í hraununum í kringum bæinn.

Fjárbendill

Hinn bóndinn er Bjarnfreður Ármannsson sem lengi hefur verðið réttarstjóri og fjallkóngur einnig undanfarið. Hann titlar sig fjárbendil í símaskrá og segir það nýyrði fyrir frístundabónda. Hann er nú með féð í Lónakoti en segist vera á hálfgerðu samyrkjubúi með Frey Arnarsyni í Hvassahrauni.

Skv. samkomulagi Hafnarfjarðar og Grindavíkur er fé haft í lokuðum beitarhólfum í Krýsuvík og nágrenni á sumrin svo smölun er ekki flókin. Girðingin er þó ekki alveg fjárheld og oft sem straumur er ekki á rafmagns­girðingunni.
Börnin ánægð

Greiðlega gekk að draga í dilka og fengu ýmsir að prófa og var mikil spenna meðal barnanna sem fengu að hjálpa til við að fanga fjörug lömb. Mátti sjá ótta og stolt í andlitum sumra, jafnvel á sama tíma.

Sérstaka athygli vakti vel hyrnt fé og jafnvel fjórhyrnt fé en áberandi var fé sem ræktað hafði verið upp í Lónakot í gegnum árin og voru hrútarnir sérstaklega glæsilegir.

Sjá má fjölmargar myndir úr réttunum á Facebook síðu Fjarðarfrétta.

Grein þessi birtist einnig í blaðinu Fjarðarfréttum.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2