fbpx
Sunnudagur, nóvember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirFjölmennt á hátíðarhöldum þjóðhátíðardagsins - MYNDASYRPA

Fjölmennt á hátíðarhöldum þjóðhátíðardagsins – MYNDASYRPA

Veðrið lék við bæjarbúa að morgni þjóðhátíðardags og fánarnir sem skátarnir höfðu dregið upp víða um bæinn héngu niður logninu. Fjölmennt var í skrúðgöngunni frá Flensborgarskóla sem leidd var af fánaborg skátanna í Hraunbúum og Lúðrasveit Hafnarfjarðar.

Dreifðist fólk strax á nokkra staði, Hörðuvelli, Strandgötuna, Hellisgerði og Víðistaðatún þar sem Víkingahátíðin var.

Hátíðardagskrá var á Thorsplani, hoppukastalar voru á Linnetsstíg, við bókasafnið, við gamla Lækjarskóla og á Hörðuvöllum og óvenjumargir sölubásar voru í bænum, ekki aðeins frá félögum í bænum sem söfnuðu fyrir starf sitt, heldur mátti einnig sjá fyrirtæki með sölubása sem voru í miðbænum auk matarvagna.

Fjallkonan í ár var Björk Níelsdóttir sem flutti frumsamið ljóð og var flutningur hennar einkar glæsilegur.

Má ég heyra þig syngja
og segja þína sögu?

varlega stígum við saman
stutt skref
eitt í einu
hönd þín í lófa mínum

Viltu leiða mig heim?

framhjá bláum boga
lítilli tjörn
grænu túni
og skrýtnum blómastandi

Viltu leiða mig heim?

framhjá rósastíg
angandi öspum í Hellisgerði
hundaskít á Hverfisgötu
og gamla rauða húsinu mínu

Viltu leiða mig heim?

framhjá grænni og hvítri kirkju
við göngum upp á Hamar
og horfum á bát á lygnum sjó.

Viltu leiða mig heim?

Þú staðnæmist
andar að þér sjávarlofti
og ég kyssi þig
með salt á vörum

sumarnóttin er í sparifötum

Ég leiði þig heim.

Björk Níelsdóttir, fjallkona í Hafnarfirði 2024.

Dagskrá lauk um kl. 17 en kvölddagskrá var svo á Thorsplani frá kl. 19 til kl. 22.

Hér má sjá nokkrar myndir frá þjóðhátíðardeginum sem ljósmyndari Fjarðarfrétta tók:

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2