Fjölskylduráð leggur til að óskað verði eftir tilboðum í uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimilis, heilsugæslu og mögulega annarri lífsgæðatengdri starfsemi, á lóðinni við Hringhamar 35* í hverfi sem nefnt er Hamranes, Í Dalnum næst Skarðshlíðinni innst á Völlunum.
Vísaði ráðið tillögunni til umræðu í bæjarstjórn.
*Reyndar er þetta ekki á lóðinni nr. 35 sem er í eigu Dverghamra, heldur er þetta lóðin nr. 43 við Hringhamar skv. upplýsingum Sigurðar Haraldssonar við fyrirspurn Fjarðarfrétta.
Telja ekki mikla vinnu hafa verið lagða í málið
Í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar segir að miðað við þau gögn sem lágu fyrir fundinum sé ljóst að ekki hafi mikil vinna farið fram vegna málsins. Óskuðu fulltrúarnir eftir upplýsingum um þá fundi sem fulltrúar sveitarfélagsins hafa átt með heilbrigðisráðuneytinu, og eftir atvikum öðrum ráðuneytum, til þess að þrýsta á um aðkomu ríkisins að málinu.
Á fundi sínum 20. september sl. fól fjölskylduráð fjölskyldu- og barnamaálasviði að vinna að fjölbreyttum útfærslum á lóðinni með áherslu á eldra fólk, heilsugæslu og heilsu og lífsgæðatengdri starfsemi í þágu íbúanna á svæðinu sem og í öllum Hafnarfirði.
Ekkert kemur þó fram í fundargerð fjölskylduráðs hvernig þeirri vinnu reið af og hvort núverandi tillögur sé afrakstur þeirrar vinnu.
Upphaflega átti að byggja 60 íbúða hjúkrunarheimili í Skarðshlíð (áður Vellir 7) og voru samningar undirritaðir um það í maí 2010. Nýtt heimili var hannað en málaferli voru eftir útboð á byggingu þess og því frestaðist að hefja byggingu. Það var svo í júní 2015 sem nýr meirihluti ákvað að hætta við byggingu þar og byggja í stað við Sólvang sem átti að taka í notkun í apríl 2018. Það var hins vegar tekið í notkun í ágúst 2019, 9 árum eftir að samningar um byggingu hjúkrunarheimilis var undirritaður.
Fulltrúar Samfylkingarinnar bóka eftirfarandi:
Í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar 20. september segir að árið 2013 hafi verið samþykkt af öllum flokkum sem þá voru í bæjarstjórn að hefja undirbúning á byggingu hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð. „Að baki þeirri ákvörðun lá mikil vinna sem náði aftur til ársins 2006 en með breyttum meirihluta árið 2014 var þeim áformum vikið til hliðar. Á fundi bæjarstjórnar í júní 2021 samþykkti bæjarstjórn ályktun um mikilvægi þessarar þjónustu enda munu 10 þús. manns búa á þessu svæði þegar Vallahverfi, Skarðshlíð og Hamranes verða fullbyggð. Á þeim fundi var bæjarstjóra falið að fylgja málinu eftir við heilbrigðisráðuneytið.“ Í lok bókunarinnar segir að nauðsynlegt sé að upplýsingar liggi fyrir sem fyrst um hvaða vinna hafi átt sér stað og gerð verði grein fyrir þeim viðræðum sem hafa átt sér stað við ráðuneytið.