fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirFólki gefinn kostur á að gera athugasemd við matsáætlun vegna breikkunar Reykjanesbrautar

Fólki gefinn kostur á að gera athugasemd við matsáætlun vegna breikkunar Reykjanesbrautar

Gert ráð fyrir að bjóða út verkið árið 2021

Frestur til að skila athugasemdum við tillögu að tillögu að matsáætlun vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi og að þeim kafla sem þegar hefur verið tvöfaldaður, er til 10. desember nk. Hefur Vegagerðin lagt fram tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Tvöfalda á og aðskilja akstursstefnur á um 5,6 km kafla á milli Krýsuvíkurvegar og Hrauns. Breikka á veginn úr tveimur akreinum í fjórar með aðskildum akstursstefnum, frá núverandi mislægum vegamótum við Krýsuvíkurveg í átt að Reykjanesbæ þar sem breikkunin tengist inn á fjögurra akreina kaflann sem endar við mörk Sveitarfélagsins Voga, á Hrauni vestan Straumsvíkur. Vegstæðið verður ekki fært, heldur á einungis að breikka núverandi veg þannig að legan helst óbreytt.

Unnið er að breytingu á aðalskipulagi en skv. núgildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Reykjanesbrautin sveigi til suðurs meðfram álverinu en það hafði verið ákveðið vegna fyrirhugaðrar stækkunar álvers Rio Tinto í Straumsvík.

Er reiknað með að verkið verði boðið út síðla næsta árs og að verði lokið 2024.

Hér má sjá að gert er ráð fyrir tengingu við Álhellu.

Breikkun

Núverandi breidd vegar er 11,5 m og mun vegurinn nýtast sem akbraut fyrir umferð til vesturs svo breikkunin verður til suðurs. Verður vegurinn frá mislægum vegamótum við Krýsuvíkurveg að núverandi brú/vegamótum við Straumsvík alls 24,5 m með tveimur vegriðum milli akreina.

Frá brú/vegamótum við Straumsvík að núverandi fjögurra akreina vegi á Hrauni verður vegurinn alls 34 m að breidd með tveimur vegriðum milli akreina.

Vegamót og vegtengingar

Vestasti hluti framkvæmdasvæðisins. Mislægt gatnamót við Rauðamel.

Í verkefninu er gert ráð fyrir einum mislægum vegamótum við Rauðamel sem m.a. nýtist útivistarfólki og tengingu að skolphreinsistöð austan Straumsvíkur. Aðkoma að álverinu í Straumsvík breytist þannig að útbúin verður ný aðrein sem tengist inn á hringtorg og þaðan verður útbúin ný frárein til vesturs. Sunnan vegamótanna við álverið verður útbúið hringtorg og ný vegtenging við Álhellu til suðurs. Landmótun vegamóta verður með svipuðum hætti og á öðrum mislægum vegamótum vestar á Reykjanesbraut.

Tenging Reykjanesbrautar við skolphreinsistöð verður einföld T-vegamót þar sem eingöngu hægri beygja verður leyfð. Tengingin við Straum, norðan við núverandi veg, er hugsuð til bráðabirgða og er á viðkvæmu svæði við tjarnirnar í fjörunni vestan álvers.

Göngu- og hjólreiðastígar

Í fyrirhugaðri framkvæmd er gert ráð fyrir einum undirgöngum undir Reykjanesbraut fyrir gangandi og hjólandi umferð rétt austan við álverið í Straumsvík. Einnig er gert ráð fyrir að rými sé til staðar fyrir hjólandi/gangandi umferð í mislægum vegamótum við Rauðamel. Þá er í samræmi við aðalskipulag Hafnarfjarðar gert ráð fyrir göngu- og hjólastígum meðfram Reykjanesbraut. Í drögum að hönnun framkvæmdarinnar hafa þessar lausnir ekki verið fullhannaðar, en nánar verður gerð grein fyrir þeim og áhrifum þeirra í frummatsskýrslu.

 

Útivistarsvæði skv. Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 (OP11, grænt svæði). Blátt svæði er skilgreint sem hafnarsvæði og hvítt þar sem skipulagi hefur verið frestað.

Tillagan er aðgengileg hér  og hjá Skipulagsstofnun. Allir geta kynnt sér tillöguna og lagt fram athugasemdir.

Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 10. desember 2020 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2