Hafnarfjarðarbær og Framtíðar fólk ehf. hafa undirritað þjónustusamning um rekstur leikskólans Áshamars.
Leikskólinn verður sex deilda mun rúma 120 börn en hann er staðsettur í jaðri Hamraneshverfisins.
Hann verður 19. leikskólinn í bæjarfélaginu en þar verður sérstök áhersla lögð á útikennslu.
Útikennsla eitt meginstefa
Guðrún Jóna Thorarensen, framkvæmdarstjóri Framtíðar fólks ehf., segir útikennslu verða eina af megináherslum skólans enda umhverfi skólans einstakt.
„Einnig sköpun, vellíðan barnanna og samvinna,“ segir hún. Samfélagið kalli á minni streitu, meiri ró. „Útikennsla er mjög góð til að hjálpa okkur að finna frið og ró.“
Guðrún, sem er menntaður leikskólakennari og með M.Ed. gráðu í stjórnun menntastofnana, segir að stundum sé talað um umhverfið sem þriðja kennarann í leikskólastarfinu. „Þarna er ekki hægt að segja annað en að umgjörðin öll verði eins og best verður á kosið.“ Hún hlakki til að taka við húsinu í lok febrúar og ráða inn starfsfólk.
Hönnun sem smellpassar starfseminni
Guðrún hefur starfað að leikskólamálum lengi, bæði hjá borginni og í Hjallastefnunni. Nú mun hún reka Áshamar.
„Það er gaman að sjá hvernig hönnun byggingarinnar endurspeglar umhverfið. Stórir gluggar og hurðir út af hverri deild. Hönnunin er ótrúlega flott hjá Hafnarfjarðarbæ,“ segir hún.
„Ég sem leikskólakennari skynja að þarna hefur komið fólk að hönnun skólans sem hefur mikla reynslu af því að vinna með börnum á leikskólaaldri. Deildirnar eru einstaklega rúmgóðar og þrjú herbergi innan hverrar deildar, mikil lofthæð og birta. Lögð er áhersla á að nota stóra glugga, þakglugga og gler,“ lýsir hún.
„Svo er öll vinnuaðstaða einstök. Tveir listaskálar fyrir börnin, salur með sviði. Allir kennarar fá gott pláss undir sérkennslu og viðtalsherbergi við foreldra. Þetta er allt upp á tíu.“
Draumur að rætast
Leikskólinn er byggður upp með Modules timbureiningum sem settar eru saman í verksmiðju í Eistlandi. Leikskólinn verður á einni hæð í L-laga formi um eitt miðsvæði sem mun halda utan um starfsemina og leikskólalóðina auk þess að mynda skjól.
Stefnt er að því að opna skólann 1. apríl og verður skólinn sá fyrsti sem Guðrún rekur sjálf. „Það gefur mikið frelsi að byggja starfið frá grunni og gaman að takast á við reksturinn sjálf. Já, nú er draumur að rætast.“