Félagar í Skátagildunum, félögum eldri skáta, sóttu Friðarlogann í gær ásamt skátum úr Hraunbúum og skátahöfðingja í Karmelklaustrið í Hafnarfirði. Var þar falleg og látlaus athöfn þar sem nunnurnar spiluðu á fjölmörg hljóðfæri og sungu fyrir viðstadda og skátarnir sungu m.a. Tendraðu lítið skátaljós og Tengjum fastara bræðralagsbogann og tóku nunnurnar undir í söngnum.
Friðurinn byrjar með þér
Sigríður Kristjánsdóttir, Skátagildinu í Hveragerði flutti friðarboðskapinn sem kemur að þessu sinni frá Danmörku. Hann fjallar um það að friðurinn byrji með þér.
![](https://www.fjardarfrettir.is/wp-content/uploads/Fridarloginn_klaustrid-03-1024x683.jpg)
Gústi úr Skátagildinu í Hveragerði og Þórður og Elsa Rún, skátar úr Hraunbúum, sóttu logann hjá nunnunum sem varðveita hann allt árið. Af loganum var síðan keikt á kertum hjá gestum sem lýstu upp andlit fólks.
![](https://www.fjardarfrettir.is/wp-content/uploads/Fridarloginn_klaustrid-07-1024x683.jpg)
Hvað er Friðarloginn?
Loginn á uppruna sinn í Fæðingarhellinum í Betlehem sem hefur logað þar óslitið.
![](https://www.fjardarfrettir.is/wp-content/uploads/Fridarloginn_klaustrid-12-1024x640.jpg)
Árið 1986 sóttu skátar logann og fluttu til Evrópu og árið 2001 kom loginn til Íslands og hefur logað hér síðan. Hann er vel geymdur hjá nunnunum í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Víðs vegar um heim er verið að dreifa loganum þessa dagana.
Friðarloganum er deilt til þeirra sem vilja og boðskapur hans er:
- Friður á jörðu
- Ljós fyrir samfélag
- Ljós skilnings
- Ljós friðar og vináttu
- Ljós umburðarlyndis
- Ljós þurfandi og einmana
- Gjöf til að lýsa upp á aðventunni
- Gjöf handa þér svo þú getir kveikt á kerti öðrum til gleði
![](https://www.fjardarfrettir.is/wp-content/uploads/Fridarloginn_klaustrid-02-1024x513.jpg)
Á aðventu fara skátarnir með logann á fundi hjá skátunum bæði þeim eldri og yngri, í kirkjur og hægt er að nálgast logann m.a. hjá Bandalagi íslenskra skáta í Hraunbæ. Hér í Hafnarfirði er hægt að nálgast hann í kirkjunum þegar líður á aðventuna.
Til þess að flytja hann er best að vera með olíulampa eða góða kertalukt.