Stjórn frjálsíþróttadeildar FH hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir stjórnarfund deildarinnar fyrr í dag þar sem stjórnin harmar þá stöðu sem aðalstjórn FH er komin í hvað varðar fjárreiður og rekstur Skessunnar, knattspyrnuhúss í Kaplakrika.
„Samkvæmt skýrslu sem Deloitte vann fyrir Hafnarfjarðarbæ er margt óljóst og umdeilanlegt hvað varðar bókhald og meðferð fjármuna svo vægt sé til orða tekið. Þær upplýsingar sem þar koma fram eru skellur fyrir íþróttastarfsemina í Hafnarfirði.
Það skal tekið fram að frjálsíþróttadeildin hefur aldrei fengið greiðslur frá Aðalstjórn FH vegna rekstrartaps enda hefur deildin kappkostað að hafa sinn rekstur réttum megin við núllið í gegnum árin.“
Fjarðarfréttir fékk skýrslu Deloitte í hendur frá Hafnarfjarðarbæ 10. desember en hafði óskað eftir henni 11. nóvember. Í framhaldi af móttöku hennar var sviðsstjóra stjórnsýslusviðs send ítarleg fyrirspurn með afriti til bæjarráðs um viðbrögð bæjarins við skýrslunni en hefur ekki fengið nein svör ennþá.
Hafnarfjarðarbær fékk Deloitte til að framkvæma úttekt á meðferð fjármuna FH á byggingartíma knatthússins Skessunnar sem snúa helst að byggingarframkvæmdum, fjármögnun og hvernig rekstri Skessunnar hefur verið háttað frá því húsið var tekið í notkun.