Fimmtudagur, apríl 17, 2025
HeimFréttirFulltrúar D- og B- lista hafna málflutningi fulltrúa Viðreisnar

Fulltrúar D- og B- lista hafna málflutningi fulltrúa Viðreisnar

Að ósk bæjarfulltrúa Viðreisnar Jóns Inga Hákonarsonar, voru málefni Kaplakrika tekin til umræðu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 12. mars sl.

Í bókun fulltrúa Viðreisnar í bæjarstjórn 26. febrúar sl. kom fram m.a. „Viðreisn harmar þá ákvörðun bæjarstjórnar að leitast ekki eftir því að semja við kröfuhafa um lækkun skulda félagsins og lágmarka þannig útgjöld útsvarsgreiðenda í Hafnarfirði.“ Í bókuninni segir m.a.: „Gagnrýni okkar hefur ekkert með sjálft félagið að gera. Það er ekki skilningur Viðreisnar að stefna bæjarins sé eingöngu að eiga íþróttahúsin í bænum heldur frekar sé stefnan að uppbygging íþróttamannvirkja sé á hendi bæjarins og á ábyrgð bæjarins. Nú hefur verið opnað á það fordæmi að hvaða félag sem er getur byggt upp aðstöðu fyrir lánsfé, komið sér í ógöngur og krafið bæjarsjóð um að kaupa eignina þar sem stefna bæjarins sé að eiga öll íþróttamannvirki í bænum. Slíkt fordæmi er vont,“ segir í bókuninni.

Á fundinum 12. mars sl. ítrekaði Jóni Ingi alvarlega gagnrýni á meðferð þessa máls og þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við yfirtöku Hafnarfjarðarbæjar á eign FH. Sagði hann það vera óásættanlegt að bæjarstjórn hafi samþykkt samning sem byggði á ófullnægjandi upplýsingum og þar sem grundvallarforsendur reyndust rangar. Segir hann í bókun á fundinum að hagsmunir stjórnenda FH og hagsmunir kröfuhafa hafi þannig verið teknir fram yfir hagsmuni almennings. „Slíkar ákvarðanir, teknar án fullnægjandi greiningar og án þess að kanna allar leiðir til að lágmarka kostnað fyrir bæjarbúa, eru ekki boðlegar og skapa hættulegt fordæmi. Viðreisn krefst þess að verklag og ábyrgð þeirra sem stóðu að samningnum verði skýrð og að tryggt verði til framtíðar að bæjarstjórn fái alltaf réttar og fullnægjandi upplýsingar áður en teknar eru ákvarðanir sem varða fjárhag bæjarins og almannahagsmuni.“

Gagnrýndi hann í málflutningi sínum að viðbyggingin með anddyri og búningsaðstöðu hafi verið undanskilin en í tilkynningu á vef Hafnarfjarðar um kaupin segi: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum síðastliðinn miðvikudag að kaupa Skessuna, knatthús FH-inga, með öllu því sem eigninni fylgir auk tilheyrandi lóðaréttinda.“

Búningsaðstaðan metin á 147 milljónir kr.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi lagði fram bókun fyrir hönd meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þar sem málflutningi bæjarfulltrúa Viðreisnar um að bæjarfulltrúar hafi verið blekktir í aðdraganda kaupa Hafnarfjarðarbæjar á knatthúsi FH Skessunni er vísað alfarið á bug.

„Öll gögn lágu fyrir fundum bæjarráðs þegar unnið var að málinu, þar sem meðal annars kom fram að búningsaðstaða Skessunnar yrði ekki inni í kaupunum. Í vinnuskjali sem fylgdi í meðförum málsins kemur þetta skýrt fram og að búningsaðstaðan sé metin á um 147 mkr.“

Búningsaðstaðan umrædda er 300,6 m² að stærð skv. samþykktum teikningum og er fasteignamat byggingarhlutans 26,3 milljónir kr. og brunabótamat 49,1 milljón kr. Ekki kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar né er hægt að finna á vef bæjarins umrætt vinnuskjal og því ekki vitað hver hafi metið búningsaðstöðuna á 147 milljónir kr.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2