fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirFundu kjallara undir bílastæði í miðbænum

Fundu kjallara undir bílastæði í miðbænum

Saumavélar og herðatré frá Einari Einarssyni klæðskera

Þar sem bílastæðin eru við hlið tónlistardeildar Bókasafns Hafnarfjarðar stóð áður hús Einars Einarssonar klæðskera en oftast gekk hann undir nafninu Einar skreðari.

Einar var fæddur 13. desember 1894,  í Hítarneskoti á Mýrum, sonur hjónanna Guðbjargar Árnadóttur og Einars Einvarðssonar er þar bjuggu. Ungur fluttist hann til Reykjavíkur og nam klæðskeraiðn hjá H. Anderson & Sön. 1914 kvæntist hann Helgu Þorkelsdóttur og eignuðust þau níu börn. Nokkur ár bjuggu þau Einar og Helga í Reykjavík en fluttu svo til Hafnarfjarðar.

Einar rak klæðskeraverkstæði við Strandgötu eða öllu heldur að Austurgötu 6. Bjó hann ásamt konu sinni Helgu Þorkelsdóttur á efri hæðunum en niðri var saumastofan og verslun og snéri hún að Strandgötu. Árið 1934 má sjá auglýsingu í Ljósberanum þar sem Einar auglýsir að hann hafi vönduð fata- og frakkaefni ávallt fyrirliggjandi.

Hjónin Einar og Helga opnuðu hús sitt á Austurgötu 6 til samkomuhalds eftir að Helga hafði læknast fyrir bæn Sigurðar Sigvaldasonar, sem hingað kom frá Kanada. Voru trúarsamkomur tíðar í húsinu. Var stórhugur í litla söfnuðinum og árið 1957 er sagt frá áformum hópsins að byggja samkomuhús norðan við Öskjuhlíðina í Reykjavík.

1987 var húsið rifið eftir að það hafði staðið autt um nokkurn tíma og var illa farið. Lét Hafnarfjarðarbær rífa húsið en þá komu upp deilur innan gamla safnaðarins sem Einar hafði ánafnað eigum sínum til og var ekki einhugur um hver væri í forsvari fyrir söfnuðinn.

Kjallari finnst eftir 29 ár

Í dag var unnið að því að grafa fyrir drenlögnum við gamla húsið sem tónlistardeild Bókasafns Hafnarfjarðar er í. Við austurhlið hússins eru bílastæði og þegar sagað var í gegnum malbikið kom í ljós steypt plata og þegar hún var rofin kom í ljós kjallari sem fyllt hafði verið upp í að hluta. Við nánari skoðun kom í ljós að kjallarinn var ekki stór og hafði verið gengið inn í hann frá planinu að sunnanverðu. Í honum voru einhvers konar hillur og leifar af taui hékk þar og á herðatré auk þess sem saumavélar fundust í kjallaranum við fyrstu skoðun.

Svanlaugur Sveinsson hjá Hafnarfjarðarbæ segist ekki hafa vitað af kjallaranum en hann stjórnaði aðgerðum. Björn Pétursson bæjarminjavörður fylgdist spenntur með en hann hafði heldur ekki vitað af kjallaranum. Greinilegt er að kjallarinn hefur tilheyrt Einari Einarssyni klæðskera en undir hvað hann var nákvæmlega notaður er ekki gott að vita.

Eru lesendur sem þekkja til húsnæðisins hvattir til að hafa samband við Fjarðarfréttir eða rita athugasemd hér að neðan.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2