Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar var í dag útnefndur íþróttakarl Hafnarfjarðar 2020. Þá varð hann í fjórða sæti í vali á íþróttamanni ársins sem íþróttafréttamenn velja.
Við spjölluðum örstutt við hann eftir afhendinguna í kvöld.
Hvað stendur upp úr hjá þér? „Ætli það sé ekki bara að
„komast í gegnum árið,“ segir Anton Sveinn og brosir við. „Klárlega þó að ná þessum stökkum á heimslista og þeim árangri sem ég hef verið að bíða eftir síðustu 4-5 ár, að ná að komast á topp 10 á heimslista á árinu og líka að komast á topp 10 „ever“ í heiminum, það er kannski það sem mig hefur alltaf langað til og ímyndað mér að kæmi einn daginn og skrýtið að það sé orðið að veruleika.“
Aðspurður hvort þetta hafi verið eitthvað sem hann hafi búist við í byrjun árs segir hann að hann hafi verið vel undirbúinn, komandi af góðu Evrópumeistaramóti í desember 2019. „Ég hafði góðar væntingar, en svo kom Covid sem setti strik í reikninginn,“ segir Anton Sveinn sem segir að æfingar og allt aðhald hafi riðlast. „En ég náði sem betur fer að snúa blaðinu við og ná góðum æfingum í júlí og byrjun ágúst til að undirbúa mig fyrir atvinnumannamót sem við vissum ekki hvort yrði eða ekki. Það voru forréttindi að fá að keppa á því enda fengu ekki margir að keppa þetta árið. Það var svo merkilegt að sjá að maður náði að skila góðum árangri þrátt fyrir ófullkominn undirbúning. Maður hefur alltaf einhvern veginn sett það upp í hausnum á sér að allt þurfi að vera perfect til að ná samsvarandi árangri og ég náði.“
Segir Anton Sveinn efst í huga sér sé þakklæti og spenna fyrir komandi ári, stóru ári 2021 sem hefði átt að vera á þessu ári. Segir hann gott að fá hrósið þó honum finnist hann alltaf þurfi að gera betur. Hann sé þó afar þakklátur fyrir viðurkenninguna.
Aðspurður hvort hann ætti sér fyrirmynd í sundinu segir hann að núna í ljósi aðstæðna sé það klárlega faðir hans, Róbert Ó. G. McKee, sem lést rétt fyrir jólin eftir stutt en erfið veikindi. „Ég væri ekki keppnismaðurinn sem ég er án þess uppeldis og kennslu sem ég fékk frá pabba. Hann var alltaf mikill íþróttamaður sjálfur og hvatti mig áfram. Ég mun synda fyrir hann áfram,“ segir sundmaðurinn Anton Sveinn McKee.