Merkur áfangi var í gær er fyrsta skóflustungan var tekin að nýbyggingum í miðbæ Hafnarfjarðar, þar sem Hafnarfjarðarbíó og Kaupfélagshúsið stóðu saman. Um 20 ár eru liðin síðan þessi hús voru rifin og hefur verið sár í götumyndinni síðan, gat sem nú verður lokað með byggingu sem tengir verslunarmiðstöðina Fjörð við Strandgötu.
Í væntanlegri stækkun Fjarðar, sem verður 8.700 m² að stærð með bílakjallara, verða 18 hótelíbúðir sem snúa að Strandgötunni og 31 íbúð með glæsilegt útsýni út á fjörðinn eða yfir gamla bæinn. Á jarðhæðinni verða verslanir og þjónusta sem tengjast núverandi verslunarmiðstöð og á annarra hæðinni verður veitingastaður og nýtt húsnæði Bókasafns Hafnarfjarðar auk íbúða.
Það er félagið 220 Fjörður ehf. sem stendur að byggingu hússins en félagið á meirihluta húsnæðis í Firði.
Byggt á deiliskipulagi frá 2001
Gildandi deiliskipulag miðbæjarins er síðan 2001 og hefur verið breytt ótal mörgum sinnum síðan en heildarendurskoðun miðbæjarskipulagsins, sem fór af stað í tíð Haraldar L. Haraldssonar, hefur ekki verið fram haldið en þess í stað hefur verið tekinn lítill hluti miðbæjarins og hann endurskipulagður. Þar hefur t.d. verið markað Ráðhústorg en engin ákvörðun hefur verið tekinn um framtíðarstað Ráðhúss Hafnarfjarðar. Núverandi ráðhús, sem var á sínum tíma fyrsta sérhannaða ráðhús landsins, er löngu sprungið og ekki hannað fyrir aðkomu bæjarbúa. Rýmum fyrir skrifstofur í miðbænum hefur fækkað á kostnað íbúðarhúsnæðis og fyrirsjáanlegt að atvinnuhúsnæði í miðbænum muni áfram verða breytt í íbúðir.
Það var fremur hryssingslegt veður og myrkur er fulltrúar eigenda 220 Fjarðar ehf. ásamt bæjarstjóra tóku fyrstu skóflustunguna í gær en vonandi merki þess að birta muni í uppbyggingu miðbæjar Hafnarfjarðar. Reyndar þurfti að endurtaka athöfnina tvisvar til að fullnægja þörfum sjónvarpsstöðvar sem reyndi að fanga gjörninginn.
5,2 milljarða kr. framkvæmd
Engin ræðuhöld voru við sjálfa athöfnina en viðstaddir flúðu veðrir og komu sér fyrir á Öldunni á annarri hæðinni í Firði þar sem boðið var upp á hressingu og hlýddu á ávarp framkvæmdastjóra Fjarðar og 220 Fjarðar, Guðmundar Bjarna Harðarsonar.
Þakkaði hann ýmsum fyrir þeirra framlag með því að gefa þeim kaktus fyrir. Sagði hann frá aðdraganda að framkvæmdunum sem í hófust er ákvað var að stofna félag um eignarhald í verslunarmiðstöðinni árið 2015. Upplýsti hann að áætlað sé að kostnaðurinn verði um 5,2 milljarðar kr. sem sé um 1,2 milljarði hærra en upphaflega var gert ráð fyrir.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, ávarpaði hópinn og sagði stórkostlegt að þetta skyldi verða að veruleika og frábært að fylgjast með hverju skrefi sem hefur verið stigið í þessu. „Og sjá allan þann metnað sem þið sem að þessu standið hafið sýnt verkefninu, hönnuninni og öllu þessu, það er til fyrirmyndar og það verður stórkostleg lyftistöng fyrir bæjarfélagið að fá þessa flottu viðbyggingu og íbúðir og ég tala nú ekki um að við ætlum að flytja bókasafnið okkar þangað og nútímavæða það,” sagði bæjarstjórinn.
Byggingin
Ask arkitektar eru aðalhönnuðir hússins en einng koma verkfræðistofurnar Strendingur, Teknik og Örugg auk Voltorku og Myrru hljóðstofu að hönnun byggingarinnar.
Byggingaraðili er 220 Fjörður efh.
Nýbygging:
- 4.250 m² íbúðarhúsnæði
- 1.100 m² hótelíbúðir
- 1.600 m² verslunarhúsnæði
- 550 m² margmiðlunarsetur
- 1200 m² bílakjallari
- Samtals 8.700 m²
Fjarðargata 13-15 (sameinuð lóð)
- Heildarstærð 14.691 m²
- Heildarstærð lóðar 5.833 m²
- Nýtingarhlutfall 3,41