Garðabær hefur látið loka gamla Álftanesvegi, nú Garðahraunsvegi við Herjólfsbraut og er umferð þar í gegn nú aðeins heimil strætó og bílum í neyðarakstri.
Þessi lokun, eða öllu heldur áform um lokun, hefur vakið hörð viðbrögð í Hafnarfirði og hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði mótmælt þeim harðlega í bókun enda er skýlaus krafa um samráð við breytingar á skipulagi sem tengist fleiri en einu sveitarfélagi. Þá hafa íbúa Garðabæjar sem búa á Naustahlein og Boðahlein lýst óánægju sinni með þessa lokun því leiðin í miðbæ Garðarbæjar lengist við þetta um 2,5 km en þessir íbúar þurfa að taka krók út á Álftanes og til baka aftur eftir nýja Álftanesveginum að hringtorgi sem er á Álftanesveginum þar sem nýji vegurinn tengist við þann gamla. Einfaldari leið er einfaldlega að aka í gegnum íbúahverfi í Norðurbænum.
Margir hafa lýst mikilli undrun og reiði yfir þessari aðgerð og einn íbúi segir að nú þurfi yfirvöld í Hafnarfirði að grípa til sambærilegra ráðstafana, banna hægri beygju af Naustahlein/Boðahlein inn á Herjólfsgötu og banna akstur frá Herjólfsbraut inn Heiðvang ásamt því að loka akbrautinni frá Naustahlein/Boðahlein til bílastæðanna við Hrafnistu.
Garðabær ætlaði jafnframt þessum breytingum að tengja Garðprýði við Garðahraunsveg við þessa lokun, en ekkert bólar á þeirri aðgerð og íbúar í nýjum húsum við Garðprýði eru í raun háðir gatnakerfi Hafnarfjarðar og sama á við um nokkur eldri hús á svæðinu.
Kort af lokuninni má sjá hér.
Í tilkynningu á heimasíðu Garðabæjar segir að þetta sé lokun til frambúðar og muni öll umferð fara um nýja Álftanesveginn héðan í frá. Breytingin sé í samræmi við deiliskipulag þessa svæðis sem samþykkt var af bæjarstjórn Garðabæjar. Deiliskipulagið er þó ekki að finna á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar.
Fjarðarfréttir greindi fyrst frá fyrirhugaðri lokun í frétt 7. september 2016 og aftur í frétt 13. október 2016.