Í gær heimsóttu nokkrir fulltrúar Geitunga aðsetur Ljóssins við Langholtsveg í Reykjavík en Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.
Komu Geitungarnir færandi hendi með yfir 50 þúsund kr. sem þeir höfðu safnað með því að selja kerti sem þeir höfðu búið til sérstaklega til styrktar Ljósinu.
Geitungar er nýsköpunar- og starfsþjálfunar miðstöð í Hafnarfirði fyrir fatlað fólk sem stofnað var í september 2015. Er það rekið af Hafnarfjarðarbæ en er opið öllum og hefur aðstöðu í gamla Skattstofuhúsinu við Suðurgötu.
„Þjónustunotendur Geitunga hafa verið í starfsþjálfun í Nettó, Kristu design og hjá Íshestum og á fleiri stöðum og hefur gengið mjög vel. Í Nettó höfum við verið að taka vörur upp úr kössum og raða þeim í hillur og hjá Kristu design höfum við verið að brjóta saman kassa undir skartgripi og aðra gjafavöru. Í Íshestum höfum við verið að kemba hestum og sópa stallana,“ segir Brynja Sóley Stefánsdóttir deildarstjóri Geitunga og yfirþroskaþjálfi.
Auk þess að vera með starfsþjálfun eru Geitungar einnig með mjög metnaðarfullt smíðaverkstæði. Þar er smíðaleiðbeinandi sem leiðbeinir þjónustunotendum, hjálpar til við hönnunarvinnu og aðstoðar við að framkalla hin ýmsu listaverk. Einnig er þar keramikherbergi þar sem margar flottar hugmyndir fæðast.
Geitungarnir hlutu Múrbrjótinn árið 2018. Múrbrjóturinn er veittur þeim sem brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að það fái tækifæri til að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu og til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra.