Nýlega opnuðu nýir eigendur veitingahússins Von mathús eftir nokkrar endurbætur.
Eigendur eru þeir Gústav Axel Gunnlaugsson, hafnfirskur Húsvíkingur og kokkurinn og brátt Hafnfirðingurinn Pétur Lúkas Axelsson og þjónninn úr uppsveitum Kópavogs, Örn Pálmi Ragnarsson. Allir hafa þeir lengi unnið saman og hjá Gústav sem einnig rekur Sjávargrillið í Reykjavík.
Matseðillinn hefur verið endurgerður og stækkaður þó áfram verði lögð áhersla á vandaða og heiðarlega matreiðslu eins og áður að sögn Gústavs.
„Við ætlum að byrja með bröns á laugardaginn þar sem fólk velur af matseðli en við verðum með opið öll kvöld í viku og sex hádegi, verðum með þjónustu alla leið,“ segir Gústav. „Við munum í hádeginu alltaf bjóða upp á fisk- og kjötrétt og á kvöldin getur fólk valið 3ja rétta matseðil og fjögurra rétta matseðil,“ segir Gústav sem upplýsir að vínseðillinn hafi verið stækkaður um helming.
Gestabarþjónn 18. apríl
„Fimmtudaginn 18. apríl ætlum við að vera með gestabarþjón og verðum með kokteila á mjög hagstæðu verði,“ en Gústav segir þá félaga vilja vera með reglulegar uppákomur á veitingastaðnum.
Aðspurður um kaup hans á Von segir hann að þeir Einar, f.v. eigandi Vonar, séu vinir og hafi unnið saman í mörg ár og bjuggu saman í London í tvö ár. Í kaffiboði um jólin hafi sala á Von borið á góma. „Þá hugsaði ég með mér að þetta gæti verið svolítið skemmtilegt og prufa eitthvað nýtt. Ég er með tvo stráka sem eru búnir að vinna hjá mér, annar í 13 ár og hinn í sjö ár á Sjávargrillinu. Þetta væri gott tækifæri fyrir mig og þá,“ segir Gústav sem sagðist hafa mikla trú á verkefninu.
Greinin var birt í 4. tbl. Fjarðarfrétta, 11. apríl 2024
Frítt Fjarðarfrétta-app í símann þinn!
Hægt er að sækja app í þinn síma í Play Store í Android símum og í Apps store í iOS símum. Frítt er að sækja appið og lesa Fjarðarfréttir!