Aðstaðan í Íþróttahúsinu við Strandgötu eins og best verður á kosið fyrir badminton
Íslandsmeistarar voru krýndir í badminton í Íþróttahúsinu við Strandgötu sl. sunnudag þegar meistaramóti Íslands lauk. Badmintonsamband Íslands og BH, Badmintonfélag Hafnarfjarðar sáu um framkvæmd mótsins sem þótti takast mjög vel enda fjölmargir sem lögðu sitt að mörkum til að gera mótið sem glæsilegast.
Keppt var á nýjum mottum sem kostaðar voru af Hafnarfjarðarbæ. Nýir dómarastólar voru notaðir, en það voru félagsmenn sem smíðuðu þá og tekinn var í gagnið nýr hugbúnaður sem skrifaður var af félagsmanni í BH sem sýndi á skjá nöfn leikmanna og stöðuna hverju sinni.
Átta Íslandsmeistaratitlar til BH
BH-ingar stóðu sig líka vel innan vallar og hömpuðu átta Íslandsmeistaratitlum. Erla Björg Hafsteinsdóttir sigraði í tvíliðaleik kvenna í meistaraflokki ásamt Drífu Harðardóttir frá ÍA en þetta er fjórði Íslandsmeistartitill Erlu fyrir BH. Þá sigraði Gabríel Ingi Helgason þrefalt í B-flokki þ.e. einliða-, tvíliða- og tvenndarleik.
Verðlaunahafar BH á mótinu voru:
- Erla Björg Hafsteinsdóttir, 1.sæti í tvíliðaleik kvenna í meistaraflokki
- Irena Ásdís Óskarsdóttir, 1.sæti í tvíliðaleik kvenna í A-flokki og 2.sæti í tvenndarleik í B-flokki
- Anna Lilja Sigurðardóttir, 1.sæti í tvíliðaleik kvenna í A-flokki
- Valgeir Magnússon, 2.sæti í tvíliðaleik í A-flokki
- Orri Örn Árnason, 2.sæti í tvíliðaleik í A-flokki
- Gabríel Ingi Helgason, 1.sæti í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik í B-flokki
- Kristian Óskar Sveinbjörnsson, 1.sæti í tvíliðaleik og 2.sæti í einliða- og tvenndarleik í B-flokki
- Anna Ósk Óskarsdóttir, 1.sæti í tvenndarleik í B-flokki
- Rakel Rut Kristjánsdóttir, 2.sæti í einliðaleik í B-flokki
- Natalía Ósk Óðinsdóttir, 2.sæti í tvíliðaleik í B-flokki
- Karítas Perla Elísdóttir, 2.sæti í tvíliðaleik í B-flokki.
Íslandsmeistarar í einliðaleik karla og kvenna
Íslandsmeistarar í einliðaleik í badminton árið 2019 urðu Kári Gunnarsson, TBR, og Margrét Jóhannsdóttir, TBR. Þetta er áttunda árið í röð sem Kári sigrar í einliðaleik og fjórða árið í röð hjá Margréti.
Margrét vann Örnu Karen Jóhannsdóttur í úrslitaleiknum í einliðaleik kvenna. Fyrstu lotuna vann hún 21-19 og aðra lotuna 21-15.
Kári sigraði í úrslitaleiknum í einliðaleik karla Kristófer Darra Finnsson. Kristófer vann fyrstu lotuna 21-19 en Kári næstu tvær 21-14 og 21-13.
Íslandsmeistarar í tvíliðaleik kvenna
Erla Björg Hafsteinsdóttir, BH, og Drífa Harðardóttir, ÍA, urðu Íslandsmeistarar í tvíliðaleik kvenna. Þetta er í fjórða sinn sem Drífa verður Íslandsmeistari í tvíliðaleik og þriðja skiptið hjá Erlu en þær hafa ekki unnið saman áður.
Í úrslitaleiknum mættu þær Margréti Jóhannsdóttur og Sigríði Árnadóttur sem voru Íslandsmeistarar í tvíliðaleik árin 2017 og 2018. Úrslitaleikurinn var jafn og spennandi. Fyrstu lotuna sigruðu Margrét og Sigríður 21-18 en aðra lotuna þær Drífa og Erla 22-20 og oddalotuna 21-17.
Íslandsmeistarar í tvenndarleik
Margrét Jóhannsdóttir, TBR, og Kristófer Darri Finnsson, TBR, urðu Íslandsmeistarar í tvenndarleik. Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill þeirra saman en Margrét hefur unnið þrisvar áður í tvenndarleik og Kristófer einu sinni. Í úrslitaleiknum mættu þau Sigríði Árnadóttur og Daníel Jóhannessyni úr TBR og sigruðu 21-18 og 21-17.
Margrét og Kristófer eru bæði tvöfaldir Íslandsmeistarar en Margrét sigraði einnig í einliðaleik og Kristófer í tvíliðaleik.
Íslandsmeistarar í tvíliðaleik karla
Kristófer Darri Finnsson, TBR, og Davíð Bjarni Björnsson, TBR urðu Íslandsmeistarar í tvíliðaleik karla. Þetta er í annað sinn sem þeir verða Íslandsmeistarar í tvíliðaleik en síðast unnu þeir árið 2017. Þeir mættu í úrslitum sigurvegurunum frá því í fyrra, Daníel Jóhannessyni og Jónasi Baldurssyni úr TBR. Kristófer og Davíð sigruðu í tveimur lotum 21-19 og 21-19.
Nánari úrslit Meistaramóts Íslands í badminton má finna á tournamentsoftware.com.