Í dag er þjóðhátíðardagur Íslendinga þar sem minnst er þess að þennan dag árið 1944 fékk Ísland fullt sjálfstæði á ný frá Dönum.
17. júní var fæðingardagur Jóns Sigurðssonar. Fæðingardags hans var fyrst minnst með opinberum samkomum árið 1907 en fyrst var haldinn almennur þjóðminningardagur á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar 17. júní 1911 en þá var Háskóli Íslands settur í fyrsta sinn. Jón Sigurðsson, f. 17. júní 1811, dáinn 7. desember 1879, oft nefndur Jón forseti, var helsti leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld.
Árið 1944 var 17. júní valinn stofndagur lýðveldisins. Síðan hefur hann verið opinber þjóðhátíðardagur og almennur frídagur.
Flöggum íslenska fánanum
Skátar flagga íslenska fánanum á fjölmörgum stöðum kl. 8 og bæjarbúar sem eru með fánastangir eru hvattir til að flagga í tilefni dagsins og að sjálfsögðu muna að taka fánann niður fyrir miðnætti. Einnig eru bæjarbúar að draga fram alla handfána, skreyta í gluggum og ganga með þegar þeir fara út.
Fyrirtækjaeigendur eru hvattir til að flagga en þeir eru minntir á að aðeins má flagga þjóðfánum saman og má ekki flagga með fyrirtækjafánum, bæjarfánum eða öðrum fánum.
Engin formleg hátíðarhöld verða í bænum vegna Kórónuveirunnar en sundlaugar og söfn verða opin, ærslabelgur verður opnaður á ÓlaRunstúni, Lúðrasveit Hafnarfjarðar leikur á nokkrum stöðum, Þrestirnar syngja í Hellisgerði og Rauðhetta og úlfurinn verða í Hellisgerði og á ÓlaRunstúni. Íþróttaálfurinn verður við Hvaleyrarvatn kl. 16, Diskótekið Dísa leikur tónlist á Víðistaðatúni kl. 13-16 og fleira skemmtilegt verður um að vera.
Þessi þjóðhátíðardagur er í raun grasrótardagur og spennandi verður að sjá hvað bæjarbúar geta gert bæinn hátíðlegan.