Nú er nægur snjór í Bláfjöllum og færið var mjög gott í dag. Nokkuð fjölmennt var í fjallinu í dag, ekki síst ef marka mátti fjölda bíla á bílastæðum en greinilega gátu fleiri verið í fjallinu.

Gönguskíðafólk var sérstaklega ánægt með aðstæðurnar í dag, lengri brautir voru lagðar en oft áður og voru brautirnar mjög góðar og héldust svo þrátt fyrir töluverða notkun. Þeir sem mættu snemma í fjallið nutu fegurðinnar þegar sólin settist en hinir sem komu seinna fengu að njóta stjörnuhiminsins, ekki síst gönguskíðafólk sem gekk inn á heiðina í myrkrinu.

Guðrún Þórhalla Helgadóttir var ein þeirra sem steig á gönguskíði í dag og sagði hún aðstæðurnar hreint frábærar!
Bláfjallavegurinn í Hafnarfjörð var vel fær fólksbílum þó lítið þurfi til að gera hann þungfæran en fyrír íbúa í Setbergi sparast 8 km samtals ef hann er farinn í stað þess að fara um Suðurlandsveg. Er styttingin enn meiri fyrir Vallabúa. Dapurlegt að bæjaryfirvöld hafi engan áhuga sýnt á að vegurinn verði bættur og þjónusta á honum en þess í stað ákveðið að loka hinum þó heimilt verði að fara að Leiðarenda. Borið er við vatnsvernd en skiptar skoðanir hvort hún þurfi að kalla á svona aðgerðir.

Stjörnuhiminninn var fallegur frá Bláfjallaveginum og ljósin í Bláfjöllum eins og bjarmi af eldgosi.
Hér má sjá nokkrar myndir sem ljósmyndari Fjarðarfrétta tók í kvöld.







