Í svari við fyrirspurn Guðlaugar S. Kristjánsdóttur í bæjarstjórn í gær til Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins, um það hvort þegar hafi eitthvað verið greitt af þeirri fjárhæð sem verið væri að samþykkja í viðauka við fjárhagsáætlun, kom fram að þegar hafi verið greiddur út um helmingur af þeim 200 milljónum sem verið væri að samþykkja.
Í bókun fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlista fordæma þeir þá staðreynd sem fram kom í umræðu um viðaukann á fundinum; að bæjarstjóri hafi þegar greitt út 100 milljónir króna úr bæjarsjóði til Fimleikafélags Hafnarfjarðar án þess að fyrir lægi samþykktur viðauki.
„Slíkur gjörningur er andstæður 2. málsgrein 63. greinar sveitastjórnarlaga og heimildarlaus með öllu og allra síst til marks um ábyrga fjármálastjórn. Einnig stangast hann á við 65. grein, um ábyrga meðferð fjármuna sveitarfélagsins,“ segir í bókuninni.
Segir að með þessari framgöngu hafi meirihlutinn endanlega bitið höfuðið af skömminni í þessu máli og sýnt af sér fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart sameiginlegum fjármunum Hafnfirðinga.
Var lýst yfir að þessi gjörningur bæjarstjóra yrði kærður til samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins til að fá úr því skorið hvort lög hafi verið brotin í starfi.
Í bókun Rósu Guðbjartsdóttur, sem var andsvar við bókun minnihlutans, segir m.a.: „Samkvæmt rammasamkomulagi Hafnarfjarðarbæjar við Fimleikafélag Hafnarfjarðar er kveðið á um að starfshópur, svokallaður Kaplakrikahópur sem stofnaður hefur verið, muni m.a. hafa fjárhagslegt eftirlit með framkvæmd við byggingu nýs knatthús, og tryggja að greiðslur vegna eignaskiptanna verði inntar af hendi samkvæmt fjárhagsáætlun ársins sem samþykkt var í desember 2017 og eftir því sem framkvæmdum framvindur.“
Horfa má á fundinn hér en fyrirspurn Guðlaugar hefst eftir 2:05:26 klst. og svör Rósu er í beinu framhaldi. Viðbrögð Guðlaugar hefst svo eftir 2:30:17 klst. þar sem hún vísar í 63. grein sveitarstjórnarlaga þar sem eftirfarandi stendur:
„Óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun skv. 1. mgr. nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Á þetta við um hvers kyns ákvarðanir, samninga eða aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem hafa í för með sér breytingar á tekjum, útgjöldum, skuldbindingum eða tilfærslur milli liða í fjárhagsáætlun í þegar samþykktri áætlun. Viðauki er ekki gildur nema hann feli einnig í sér útfærða ákvörðun um það hvernig þeim útgjöldum eða tekjulækkun sem gert er ráð fyrir verði mætt. Á það einnig við þótt heildarútgjöld eða heildartekjur breytist ekki vegna samþykktar hans.“
“..en fjandinn hafi það, þetta er ekki okkar eigin tékkareikningur og við getur ekki greitt út svona „I owe you“ áður en farið er í gegnum það formlega ferli og við hljótum að gera ráð fyrir lágmarksvirðingu fyrir þessari stofnun hér sem heitir bæjarstjórn,“ „..að við látum ekki hanka okkur á því að brjóta lög til að kaupa tjald frá Finnlandi,” sagði Guðlaug í bæjarstjórn og var greinilega mikið niðri fyrir og vísaði hún þar í að bæjarstjóri hafði upplýst að féð hafði verið notað til efniskaupa vegna knatthússins.
Bæjarstjóri spurði hvort einhver héldi að fólk í ráðhúsinu væri að gera einhverja hluti sem væru í skjön við lög og vísaði til þess að endurskoðandi bæjarins væri í forsvari fyrir starfshóp sem nefndur er Kaplakrikahópur. Þar á hún við að að Ljósbrá Baldursdóttir, löggiltur endurskoðandi og einn hluthafa í PwC á Íslandi, situr í starfshópnum og má spyrja hvernig það fari saman með endurskoðun á reikningum bæjarins.