fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirGríðarleg eftirspurn eftir íbúðum í Skarðshlíð - 22 íbúðir seldust á innan...

Gríðarleg eftirspurn eftir íbúðum í Skarðshlíð – 22 íbúðir seldust á innan við viku

Um miðjan mánudag sl. voru 22 íbúðir í fjölbýlishúsi að Brenniskarði 1 í Skarðshlíð settar í sölu. Salan fór hratt af stað og kauptilboð í síðustu óseldu íbúðina var samþykkt í gær, u.þ.b. 5 sólarhringum eftir að húsið fór í sölu. Aron Freyr Eiríksson á Fasteignasölunni Ás sem var m.a. með íbúðirnar í sölu segir að viðbrögðin hafi verið hreint mögnuð.

Íbúðirnar eru 65,4 til 109,1 m² og söluverð þeirra er 38,5 milljónir kr. til 53,5 milljónir kr. og eru þær staðsettar rétt við Skarðshlíðarskóla. Byggingaraðilar hússins eru þeir Guðmundur Leifsson og Þröstur Valdimarsson.

Aron Freyr Eiríksson

„Þetta er lyginni líkast,“ segir Aron Freyr í samtali við Fjarðarfréttir í dag. „Eftirspurnin fór fram úr björtustu vonum þó að vitað væri að eftirspurnin yrði mikil.“

Greinilegt er að fólk er að átta sig á því hvað Skarðshlíðarhverfið er áhugavert, í mikilli nánd við miklar náttúruperlur í Hafnarfirði, Ástjörnina, Hvaleyrarvatn og gönguleiðir að upplandinu auk þess að vera örstutt frá miðbænum.

Hvað telur þú að valdi þessari miklu eftirspurn?

„Eins og oft hefur verið talað um þá hefur framboð nýbygginga í Hafnarfirði undanfarin ár verið talsvert minna en við viljum venjast. Án efa er það helsta ástæðan en svo eru auðvitað aðrir þættir sem spila inn í líka eins og gott verð, falleg hönnun og frábær staðsetning í nálægð við verslun, skóla og aðra þjónustu.“

Er ákveðinn aldurshópur sem er að kaupa þessar íbúðir?

„Eins og þetta þróaðist þá var aldurshópurinn dreifður en þó að miklu leyti í yngri kantinum, eins og búast mátti við enda margar íbúðirnar frábærar til fyrstu kaupa.

Meirihluti kaupenda eru Hafnfirðingar sem margir hverjir eru búnir að bíða spenntir eftir nýjum íbúðum. Við hjá Ás höfum látið póstlista ganga um samfélagsmiðlana undanfarna mánuði þar sem fólk getur skráð sig ef það er í leit að nýbyggingu í Hafnarfirði. Sá listi er farinn að telja fleiri hundruð manns í dag svo það er ljóst að Hafnfirðingar bíða spenntir eftir nýjum íbúðum í bæjarfélaginu.“

Ekki fengu allir sem vildu

„Því miður þá voru nokkuð margir sem náðu ekki að kaupa íbúð í Brenniskarðinu þar sem oftar en einu sinni og tvisvar komu fleiri en eitt tilboð í sömu íbúðina,“ segir Aron og segir gott að sjá að mikil uppbygging er að eiga sér stað í Skarðshlíðinni. „Það styttist vonandi hratt í að við fáum næsta nýja fjölbýlið á skrá. Þangað til hvet ég fólk til að hafa samband og við skráum það hjá okkur og sendum út tilkynningu þegar von er á fleiri nýjum íbúðum á svæðinu,“ segir Aron, hæstánægður með sölurnar.

Húsið er vel staðsett í bænum.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2