Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, sem undanfarið kjörtímabil hefur verið bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar og verið forseti bæjarstjórnar í meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkin, hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem hún lýsir yfir framboði Bæjarlistans í Hafnarfirði fyrir komandi kosningar.
Hafa nöfn efstu 6 manna verið tilkynnt en þau eru:
- Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, sjúkraþjálfari og bæjarfulltrúi
- Birgir Örn Guðjónsson, lögreglumaður
- Helga Björg Arnardóttir, tónlistarmaður
- Sigurður Pétur Sigmundsson, hagfræðingur
- Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, íþróttafræðingur
- Tómas Ragnarsson, rafvirki
Fyrrverandi félagar Guðlaugar og Einars Birkis Einarssonar, bæjarfulltrúar hafa sent inn kæru vegna embættisfærslu Guðlaugar þar sem hún skipti út fulltrúum í ráðum í andstöðu við 49. greins sveitarstjórnarlaga auk þess sem athugasemd var gerð við það að löglegur varamaður í bæjarráði fékk ekki að sitja fund. Beðið er úrskurðar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í því máli.
Það vekur athygli að Einar Birkir Einarsson sem orðaður var við framboðið er ekki á listanum enn hann er búsettur í Kópavogi en hafði flutt lögheimili sitt til systur sinnar í Hafnarfirði til að geta haldið sæti sínu í bæjarstjórn.
Í tilkynningu frá Guðlaugu segir að Bæjarlistinn Hafnarfirði sé stjórnmálaframboð skipað fólki sem vill hafa jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt og að bæjarlistinn sé óháður stjórnmálaflokkum.
Er þetta áttundi flokkurinn sem tilkynnir framboð til bæjarstjórnar í Hafnarfirði í vor.