Forsetahlaup UMFÍ fór fram á Álftanesi í frábæru veðri á uppstigningadag. Það var logn á Álftanesi þegar hlaupið var hvort sem fólk vill trúa því.
Vel á þriðja hundrað þátttakendur sprettu úr spori í hlaupinu. Hlaupið var fyrir alla fjölskylduna, allskonar fólk og allskonar fætur, að sögn skipuleggjenda en það var Skokkhópur Álftaness sem hafði veg og vanda af framkvæmd þess.
Áherslan í hlaupinu var á gleði og samvinnu, hreyfingu og samveru – hinn eiginlega ungmennafélagsanda og engin klukka í markinu.
Þetta var í þriðja sinn sem Forsetahlaup UMFÍ er haldið og annað skiptið sem það er á Álftanesi. Hlaupið er haldið í samstarfi við embætti forseta Íslands, Ungmennafélag Álftaness og Skokkhóp Álftaness.
Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók þátt í upphitun og fór létt með 5 kílómetra sprettinn frá Íþróttamiðstöðinni, að Bessastöðum og til baka. Gaf hann sér góðan tíma á leiðinni, aðstoðaði á drykkjarstöð á leiðinni, heilsaði upp á mann og annan og skellti handarkveðju á fjölmarga á leiðinni í markið.
Margir hlaupahópar með hress og skemmtileg nöfn áttu fulltrúa í hlaupinu. Þar á meðal voru Garðbæingurinn í lauginni, hlaupahópar frá FH, KR og Stjörnunni, Víkingi, Njarðvík, Hlaupasamfélag Sigga P. og tveir skokkhópar Pólverja sem búa á Íslandi. Annar þeirra er hópurinn Zimnolubni Islandia, sem er hópur fólks sem stundar kuldaböð og sjósund.
Tveir frambjóðendur tóku þátt, Ástþór Magnússon og Helga Þórisdóttir og komu bæði brosandi í mark.
Að hlaupi loknu var blásið til bæjarhátíðarinnar Forsetabikarinn.
Allir þátttakendur fengu þátttökuverðlaun, þar á meðal forseti Íslands, sem var að sjálfsögðu með númerið 1.