Hafnfirðingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir (25), atvinnukylfingur úr Keili, tryggði sér keppnisrétt á LET (Ladies European Tour) Evrópumótaröðinni á lokaúrtökumóti LET sem fram fór á La Manga golfsvæðinu á Spáni undanfarna daga.
Hún lék hringina fimm á samtals þremur yfir pari og endaði í 17. sæti. Hún þurfti að bíða þar til allir kláruðu fimmta hringinn til að vera viss um að hafa náð þessum árangri en sagði að hún hafi þó verið nokkuð örugg undir lokin þegar hún var 2 yfir pari og sá að það þyrfti mikið að gerast til að hún næði ekki inn á Evrópuröðina. Tuttugu efstu komust inn en fimm konur þurftu að spila bráðabana um síðasta sætið.
Guðrún Brá, sem er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi kvenna, verður sú fjórða sem keppir frá Íslandi á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Valdís Þóra Jónsdóttir keppir einnig á næsta tímabili en mótaröðin hefst í lok febrúar og er fyrsta mótið í Bonville í Ástralíu.
Hún er sem stendur nr. 872 á heimslista kvenna í golfi en hún gerðist atvinnukylfingur árið 2018.
„Ég geri alltaf mitt besta og við sjáum bara hvert það tekur mig.“
„Golf hefur verið í kringum mig síðan ég fæddist,“ segir Guðrún Brá í viðtali við Fjarðarfréttir. „Það eru mjög margir í fjölskyldunni minni sem spila eða spiluðu golf. Ég byrjaði ekki að æfa fyrr en ég var um 10 ára.“ Fyrir þá sem ekki vita er faðir Guðrúnar Brár, Björgvin Sigurbergsson landsþekktur golfari.
Aðspurð segir hún að í minningunni hafi hún aldrei verið rosalega spennt fyrir golfi þegar hún var lítil. „Ég æfði fótbolta með golfi frá því ég var um 10 ára og fannst það alltaf miklu skemmtilegra. Enn þegar ég byrjaði að keppa almennilega í golfi þegar ég var 13 ára þá fékk ég rosalega mikinn áhuga á golfi og fótboltinn fór í 2. sætið.“
Það stóð ekki á svari þegar hún var spurð að því hver væri fyrirmynd hennar í golfi. „Pabbi hefur alltaf verið mikil fyrirmynd hjá mér. Ég ólst upp með að horfa á hann spila þannig lærði ég helling af honum. Annars er Annika Sörenstam alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér,“ sagði Guðrún Brá.
„Ég er mjög spennt fyrir nýjum verkefnum á komandi ári,“ segir Guðrún Brá þegar hún er spurð hvað það þýði fyrir hana að keppa í LET Evrópumótaröðinni. „Ég er búin að vera að keppa á LET access sem er 2. deildin seinustu tvö ár þannig að koma mér inn á LET mótaröðina sem er efsta deildin er klárlega næsta skref áfram fyrir mig.“
„Æfingaálag breytist mikið eftir því hvar þú ert stödd/staddur á tímabilinu sem golfari, hvort þú ert í miðju keppnistímabili eða á undirbúningstímabili. Nei ég get ekki sagt að ég sé að fara að breyta einhverju,“ segir Guðrún Brá þegar hún er spurð hvort æfingarnar muni breytast. „Ég ætla bara að halda áfram að vinna í hlutum sem ég er búin að vera að vinna í og verða betri enn ég var í gær.“
„Ég tel mig eiga heima á LET mótaröðinni,“ segir hún er hún er spurð um hverja hún telji möguleika sína. „Ég geri alltaf mitt besta og við sjáum bara hvert það tekur mig,” segir hin geðþekka Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur í samtali við Fjarðarfréttir.
Lítil móttaka var haldin Guðrúnu Brá til heiðurs í kvöld hjá Keili þar sem árangri hennar var fagnað en framundan eru mikil ferðalög og strangar æfingar. Björgvin faðir hennar hefur fylgt henni töluvert síðasta sumar en hún þarf líka að standa á eigin fótum í hörðum heimi en segist hafa komist í hóp kvenna m.a. frá Noregi og Svíþjóð sem hún ferðist með og segir að veiti sér mikinn stuðning.
Ljósmyndir: Guðni Gíslason.