Íslensku lýðheilsuverkefnin voru afhent á Bessastöðum í annað sinn fyrir skömmu
Forseti afhenti Íslensku lýðheilsuverðlaunin í annað sinn við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum fyrir mikilsvert framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi.
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, hlaut verðlaunin í einstaklingsflokki og afhenti forseti þau.
Í flokki starfsheilda varð Grunnskólinn á Ísafirði fyrir valinu. Kristján Agnar Ingason tók við verðlaununum, sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra afhenti.
Guðrún Jóna
Hafnfirðingurinn Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, er hugsjónamanneskja með mikið baráttuþrek sem hefur barist fyrir því að opna umræðu um sjálfsvíg á opinberum vettvangi.
Ásamt því hefur hún unnið í mörg ár í gegnum félagasamtök að forvörnum sjálfsvíga og stuðningi við aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi.
Guðrún Jóna stýrir nú verkefnum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna. Hún hefur aflað sér mikillar þekkingar á þessu sviði sem hún miðlar áfram af einstakri elju.
Grunnskólinn á Ísafirði
Grunnskólinn á Ísafirði hefur í 30 ár staðið fyrir fjallgönguverkefni fyrir alla árganga. Á hverju hausti fer hver bekkur í fjallgöngu sem hæfir þeirra getu innan Skutulsfjarðar. Við upphaf 10. bekkjar er farið í tveggja daga Hornstrandagöngu. Þannig hafa nemendur, sem ljúka grunnskóla, gengið á öll helstu fjöll í nágrenni. Ferðirnar eru hugsaðar til þess að nemendur læri frá ungum aldri að njóta þess að ganga á fjöll í góðum félagsskap og kynnist fjölbreyttum möguleikum til útivistar í nærumhverfi sínu.