Nýr Landspítali ohf. auglýsti þann 23. apríl sl. eftir framkvæmdastjóra. Alls bárust 12 umsóknir en þrír umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.
Stjórn Nýs Landspítala ohf. ákvað á fundi sínum 23. júní sl. að ráða Gunnar Svavarsson sem framkvæmdastjóra félagsins.
Gunnar er vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann stofnaði og var framkvæmdastjóri Aðalskoðunar hf. um árabil og sat á Alþingi um tveggja ára skeið og var þá meðal annars formaður fjárlaganefndar. Þá starfaði Gunnar í sveitarstjórnarmálum á annan áratug og var bæjarfulltrúi í Hafnarfirði fyrir Samfylkinguna. Undanfarin sjö ár hefur hann verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi og sinnt stjórnar- og rekstrarstörfum m.a. við verkefnið um Nýjan Landspítala auk fjölmargra annarra stjórnunarverkefna fyrir einka- og opinbera aðila.
Laun vegna starfsins eru ákvörðuð af kjararáði í samræmi við lög um kjararáð nr. 47/2006.
Eftir aðalfund Nýs Landspítala ohf. sl. miðvikudag er stjórn félagsins þannig skipuð: Erling Ásgeirsson, stjórnarformaður, Dagný Brynjólfsdóttir og Hafsteinn S. Hafsteinsson.