fbpx
Fimmtudagur, september 5, 2024
HeimFréttirHæstiréttur hafnaði beiðni fyrrum stjórnarmanna í IOGT og Hafnarfjarðarbæjar um leyfi til...

Hæstiréttur hafnaði beiðni fyrrum stjórnarmanna í IOGT og Hafnarfjarðarbæjar um leyfi til að kæra

Góðtemplarareglan á Íslandi er talinn eigandi hússins eftir dóm Landsréttar

Hæstiréttur hafnaði nýlega beiðni Jóns Kr. Jóhannessonar, Jóns Sigurbjörnssonar, Símonar Jóns Jóhannssonar, stjórnamönnum í Hafnarfjarðardeild IOGT og Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 8. júlí sl. um leyfi til að kæra úrskurð Landsréttar 25. júní 2024 í máli Bindindissamtakanna IOGT ofangreindum.

Mál snýst um kröfu IOGT um að felld verð úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá apríl 2023 um að afmá kvöð IOGT af fasteigninni Suðurgötu 7 í Hafnarfirði, Gúttó.

Hafnarfjarðardeildin gaf Hafnarfjarðarbæ húsið

Höfðu stjórnarmenn í Hafnarfjarðardeild IOGT afhent eignarhald á húsinu án þess að bera það undir landsstjórn IOGT og lagt svo deildina niður.

Héraðsdómur hafnaði kröfu IOGT en með úrskurði Landsréttar var krafa samtakanna tekin til greina. Landsréttur rakti að ráðið yrði af athugasemdum með frumvarpi sem varð að þinglýsingarlögum að mistök við þinglýsingu yrðu að vera augljós svo unnt væri að beita 1. mgr. 27. gr. laganna, eftir atvikum til að afmá þinglýst réttindi. Landsréttur taldi að svo hefði ekki verið þegar sýslumaður tók hina umdeildu ákvörðun. Þar leit Landsréttur einkum til þess að þegar kvöðinni var þinglýst í júlí 2006 var skráður eigandi fasteignarinnar „Góðtemplarar í Hafnarfj“ en ekki Góðtemplarahúsið sf. og þóttu gögn málsins ekki bera með sér að augljóst hefði verið fyrir sýslumann, að virtum þeim gögnum sem fyrir honum lágu, að þar hefði verið um einn og sama aðila að ræða eða að „Góðtemplarar Hafnarfj“ gætu talist vera sjálfstæður lögaðili frekar en deild eða félagsskapur innan gagnaðila, svo sem fullyrt var í texta kvaðarinnar.

Deilt um þinglýsingu á kvöð

Þremenningarnir og Hafnarfjarðarbær byggðu mál sitt á því að úrskurður Landsréttar væri bersýnilega rangur þar sem litið sé framhjá áskilnaði 1. mgr. 24. gr. þinglýsingarlaga um heimild útgefanda skjalsins til ráðstöfunar fasteignar, auk þess sem túlkun Landsréttar á heimild þinglýsingarstjóra til að leiðrétta mistök eigi sér ekki fullnægjandi stoð í 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Þá byggðu leyfisbeiðendur á því að málið varðaði mikilsverða almannahagsmuni og geti haft fordæmisgildi. Þannig sé samþykki dómstóla fyrir því að skjal sé fært í þinglýsingabækur án skýrrar þinglýstrar eignarheimildar eða skýlauss samþykkis aðila sem slíkrar heimildar nýtur til þess fallið að valda töluverðri óvissu um heimild til þinglýsingar skjala um ráðstöfun fasteigna og þar með óvissu um þinglýstar eignarheimildir. Leyfisbeiðendur töldu að úrskurður Landsréttar setji varhugavert fordæmi um túlkun þinglýsingalaga og skilyrði þinglýsinga með ófyrirséðum afleiðingum um skráningu, stofnun og ráðstöfun eignarréttinda.

Hæstiréttur taldi ekki að úrlausn um kæruefnið varðaði mikilsverða almannahagsmuni eða gæti haft fordæmisgildi. Þá væri ekki ástæða til að ætla að úrskurður Landsréttar hafi verið bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um kæruleyfi var því hafnað.

Góðtemplarahúsið, sem í daglegu tali er kallað Gúttó, var byggt árið 1886 og þótti stórt, rúmaði um 300 manns en þá bjuggu rúmlega 400 manns í Hafnarfirði. Góðtemplarahúsið var fyrsta eiginlega samkomuhús Hafnfirðinga og um langan tíma miðstöð allrar menningar í bænum. Þar fór fram félagsstarf Góðtemplarareglunnar, auk funda og skemmtana annarra félaga. Í húsinu var fyrsti fundur bæjarstjórnar Hafnarfjarðar haldinn. Í Góðtemplarahúsinu er að finna sýninguna „Gúttó – Hús templara, vagga félags- og menningarlífs í 130 ár“ þar sem varpað er ljósi á sögu templaranna og starfseminnar í húsinu í gegnum árin.

Endurbætur

Samningur um endurbætur og afnot frá 2007. Smelltu á mynd til að sjá stærri.

Gerðar voru viðamiklar endurbætur á húsinu árið 1992 af Jóni Kr. Jóhannessyni í samvinnu við Lovísu Christiansen innanhússarkitekt hjá Litlu teiknistofunni. Þessar endurbætur miðuðust við að færa húsið sem mest til upprunalegs horfs.

Við endurbæturnar var viðbygging sem tengdi húsið við Blöndalshúsið svokallað en sárið sem myndaðist aldrei lagað og olli það töluverðum skemmdum.

Árið 2010 var svo ráðist í endurbætur og stjórnaði Sturla Haraldsson, byggingarmeistari þeirri vinnu. Verkefnið var unnið í samvinnu við Húsafriðunarnefnd ríkisins og var atvinnuleysisátaksverkefni þar sem Atvinnuleysistryggingasjóður og Hafnarfjarðarbær greiddu laun mannanna en stjórn Góðtemplarahússins aflaði styrkja til að standa straum af efniskostnaði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2