Þann 22. janúar sl. kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem Jakob Már Ásmundsson, Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir, Sigrún Arnardóttir og Sölvi Sveinbjörnsson höfðuðu á hendur Hafnarfjarðarkaupstað og Gunnari Hjaltalín, eiganda hússins að Hellubraut 7 þar sem krafist var ógildingar á ákvörðun bæjarins um að samþykkja þá breytingu á deiliskipulagi að heimila niðurrif friðaðs hús að Hellubraut 7 og að nýtt hús yrði byggt í staðinn og að heimila byggingu húss að Hellubraut 5. (Hellubraut 7 var skipt upp í tvær lóðir, nr. 5 og 7.)
Þá höfðu sækjendur krafist þess að felldar yrðu úr gildi ákvarðanir byggingarfulltrúa bæjarins um að samþykkja umsóknir um byggingarleyfi á lóðunum og gefa út byggingarleyfi á þeim.
Sneri deila aðila meðal annars að því hvort Minjastofnun Íslands hefði verið heimilt að binda leyfi til niðurrifs hússins skilyrðum á grundvelli 29. og 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar en sækjendur héldu því fram að deiliskipulagsbreytingin hefði brotið gegn skilyrðum stofnunarinnar.
Í dómi Hæstaréttar kom fram að skilyrði Minjastofnunar Íslands fælu í sér takmörkun á skipulagsvaldi sveitarfélaga samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá kynnu skilyrðin að leiða til takmörkunar á stjórnarskrárvörðum eignarráðum fasteignareiganda, sbr. 1. mgr. 72. gr. hennar, en vafa um það yrði að skýra fasteignaeiganda í hag.
Heimild til að binda stjórnvaldsákvörðun skilyrðum yrði að styðjast við skýra og ótvíræða lagaheimild í ljósi lagaáskilnaðarreglna stjórnarskrárinnar og lögmætisreglunnar. Þar sem ekki hagaði svo til í málinu var talið að stofnunina hefði brostið heimild til að binda leyfið umræddum skilyrðum. Voru Hafnarfjarðarkaupstaður og Gunnar Hjaltalín, eigandi Hellurbrautar 7 því sýknaðir af kröfum eigenda að Hellubraut 5 og Hellubraut 7.
Deilt um lagalegar forsendur
Á fundi sínum 9. febrúar 2011 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar nýtt deiliskipulag fyrir svæðið Suðurgata-Hamarsbraut. Samkvæmt deiliskipulaginu var lóðinni að Hellubraut 7 skipt í tvær lóðir, Hellubraut 5 og Hellubraut 7.
Þá var heimilað að byggja einbýlishús að Hellubraut 5, einnar til einnar og hálfrar hæðar, og skyldi bílgeymsla vera innfelld í húsið. Húsið skyldi vera með mænisþaki, með 30° lágmarks þakhalla, og nýtingarhlutfall lóðar vera mest 0,45.
Um Hellubraut 7 kom fram í deiliskipulaginu að á þeirri lóð væri íbúðarhús byggt árið 1907 og samkvæmt lögum nr. 104/2001 um húsafriðun væri eigendum skylt að leita álits húsafriðunarnefndar hygðust þeir breyta húsi sínu, flytja það eða rífa. Hefði húsafriðunarnefnd 5. maí 2009 og Byggðasafn Hafnarfjarðar í húsaskráningu 2009 metið það svo að varðveislugildi hússins væri ótvírætt og eindregið lagt til að staða þess yrði tryggð til framtíðar. Með deiliskipulaginu var heimilað að rífa bílskúr og honum áfastar geymslur á lóðinni og reisa nýjan bílskúr með flötu þaki innan byggingarreits, með hámarksvegghæð 280 cm, og sama eða lægri gólfkóta og væri í þáverandi bílskúr.
Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 9. nóvember 2016 var svo samþykkt breyting á deiliskipulagi lóðanna að Hellubraut 5 og 7. Samkvæmt henni var heimilað að byggja tveggja hæða einbýlishús að Hellubraut 5. Á húsinu skyldi vera þak með mæni að hluta og mænishalli vera að lágmarki 30°. Hluti þaks mætti vera flatur og nýtingarhlutfall lóðar mest vera 0,53.
Um lóðina að Hellubraut 7 sagði í hinu nýja deiliskipulagi að heimilað væri að rífa núverandi mannvirki á lóðinni og byggja þar tveggja hæða einbýlishús með innfelldri bílgeymslu. Skyldi þak þess vera með mæni að hluta, en hluti þess mætti vera flatur. Mænishalli skyldi vera að lágmarki 30°. Þá skyldi nýtingarhlutfall lóðar mest vera 0,6. Loks kom fram að leitað hefði verið álits Minjastofnunar Íslands á niðurrifi hússins og legðist stofnunin ekki gegn því. Byggingarleyfi vegna Hellubrautar 5 og 7 voru gefin út 1. júlí 2019.
Mikið breytt og illa farið hús
Hafnarfjarðarkaupstaðar leitaði umsagnar Minjastofnunar Íslands vegna óskar um að veitt yrði heimild „til að rífa núverandi hús og byggja nýtt í staðinn.“ Í svarbréfi stofnunarinnar 7. september 2015 kom meðal annars fram að í húsaskráningu væri húsið að Hellubraut 7 talið hafa hátt varðveislugildi vegna umhverfisgildis og einstakrar staðsetningar. Þá var rakið að á fundi húsafriðunarnefndar 28. apríl 2009 hefði eindregið verið lagt til að staða hússins yrði tryggð til framtíðar í nýju deiliskipulagi.
Í framhaldi af þessu óskaði Hafnarfjarðarkaupstaður eftir nánari úttekt á innviðum og burðarvirki hússins og í matsskýrslu 16. janúar 2012 kom fram að húsinu hefði verið mikið breytt, upphaflegt útlit væri horfið og allar klæðningar utan og innan úr framandi efnum. Húsið hefði verið forskalað eftir 1942 og seinna klætt með plastklæðningu. Byggt hefði verið við það og gluggaskipan breytt. Bentu mælingar, sem framkvæmdar hefðu verið árið 2012, ótvírætt til þess að mikill raki væri í burðargrind hússins og hana yrði að endurnýja í heild sinni.
Þá sagði í bréfinu að varðveislugildi Hellubrautar 7 lægi öðru fremur í áberandi stöðu þess í umhverfinu og mikilvægi fyrir sögulega bæjarmynd Hafnarfjarðar. Tæknilegt ástand hússins væri mjög slæmt og fátt upprunalegt nema burðargrind og undirstöður. Síðan sagði: „Í ljósi þess heimilar Minjastofnun endurnýjun hússins, m.ö.o. að nýtt hús með sama þakformi og -halla og í sömu meginstærðum verði byggt á grunni hins eldra. Útlit þess skal hanna með þeim hætti að nýbyggingin styrki sögulega bæjarmynd Hafnarfjarðar.“ Í bréfinu er ekki vísað til lagaheimildar til stuðnings svari stofnunarinnar.
Í bréfi Minjastofnunar Íslands 7. desember 2016 til áfrýjandans, Jakobs Más Ásmundssonar, sagði að það væri mat stofnunarinnar að tillaga að nýbyggingu að Hellubraut 7 væri ekki að öllu leyti í samræmi við tilmæli í fyrrgreindri umsögn stofnunarinnar 7. september 2015. Sú ákvörðun stofnunarinnar að heimila niðurrif hins friðaða húss, að teknu tilliti til mats á slæmu ástandi þess, hefði byggst á þeirri forsendu að eigendur hygðust reisa hús með sama þakformi og sömu eða mjög svipuðum innbyrðis hlutföllum milli hæðar, lengdar og breiddar.
Kostnaðarsamar deilur
Áfrýjendur, Jakob Már Ásmundsson, Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir, Sigrún Arnardóttir og Sölvi Sveinbjörnsson voru í Landsrétti dæmd til að greiða Hafnarfjarðarkaupstað og Gunnari Hjaltalín, hvorum um sig óskipt samtals 1.800.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi og Landsrétti. Í Hæstarétti vor þau svo dæmt til að greiða hvorum um sig óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.