fbpx
Föstudagur, janúar 24, 2025
HeimFréttirHafnarfjarðarbær fær viðvörunarbréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga

Hafnarfjarðarbær fær viðvörunarbréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga

Bréfið hefur ekki verið birt

Hafnarfjarðarbær hefur fengið viðvörunarbréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skv. upplýsingum sem komu fram á fundi bæjarráðs 31. október sl.

Í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar segir að þar sé gerð athugasemd við lausatök meirihlutans við fjármálastjórn í bænum.

Hafnarfjarðarbær fékk einnig viðvörunarbréf frá nefndinni vegna ársreiknings 2021 sem lagt var fram í bæjarráði þann 28. júlí 2022 og vegna ársreiknings 2022 með bréfi sem lagt var fram í bæjarráði þann 2 nóv. 2023.

Stenst ekki viðmið  um veltufé frá rekstri í hlutfalli við rekstrartekjur, framlegð í hlutfalli við rekstrartekjur og skuldahlutfall í A hluta

Bréfið, sem dagsett er 1. október, hefur ekki verið birt en í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar segir m.a.:

„Að þessu sinni stenst bærinn ekki viðmið Eftirlitsnefndarinnar um veltufé frá rekstri í hlutfalli við rekstrartekjur, framlegð í hlutfalli við rekstrartekjur og skuldahlutfall í A hluta. Þrátt fyrir endurteknar viðvaranir frá Eftirlitsnefnd hefur meirihlutinn ekki farið í endurbætur á þeim ferlum sem athugasemdir eru gerðar við, eins og fulltrúar Samfylkingarinnar hafa lagt til, eins og að setja á fót endurskoðunarnefnd líkt og endurskoðendur bæjarins hafa lagt til. Þetta er áhyggjuefni fyrir bæjarbúa og þessi bréf Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga er áminning um lausatök meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þegar kemur að fjármálastjórn sveitarfélagsins.“

Þó fundargerð bæjarráðs beri það ekki með sér þá bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar um málið. Undir fyrirsögn um bókun fulltrúa Samfylkingarinnar má lesa að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafi undanfarin ár lagt mikla áherslu á að ná tökum á gríðarlega erfiðri fjárhagsstöðu Hafnarfjarðarbæjar eftir áralanga óstjórn Samfylkingarinnar í bænum.

Úr fundargerð bæjarráðs

„Bæjarfélagið var um árabil undir sérstöku eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og þurfti í raun að bera allar fjárhagslegar ákvarðanir undir nefndina. Árið 2017 losnaði Hafnarfjarðarbær síðan undan því oki og skuldaviðmið og aðrir fjárhagslegir þættir hafa snarbreyst til betra horfs.“

Segir í bókun fulltrúa D og B að í bréfi eftirlitsnefndarinnar nú komi fram að Hafnarfjarðarbær sé umtalsvert yfir þeim fjárhagslegu viðmiðum sem sveitarstjórnarlögin setja sveitarfélögunum. Nefna þeir dæmi um að skuldahlutfall sveitarfélagsins sé komið í 82% en á samkvæmt lögum eigi það vera undir 150%.

„Ábendingar núna um smávægileg frávik frá öðrum viðmiðum eru fyrst og fremst leiðbeinandi. Meirihlutinn stefnir ótrauður áfram að því að styrkja fjárhag sveitarfélagsins með ráðdeild og ábyrgð í rekstri og dæma gífuryrði fulltrúa Samfylkingarinnar sig sjálf.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2