Jafnréttisráð veitti í dag Hafnarfjarðarbæ jafnréttisverðlaun en verðlaunin eru veitt árlega. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherraafhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Hannesarholti.
Viðurkenningu geta hlotið einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög, hópar eða félagasamtök, sem á einn eða annan hátt hafa skarað fram úr eða markað spor á sviði jafnréttiskynja. Var óskað eftir tilnefningum með auglýsingu.
Í rökstuðningi segir að Hafnarfjörður sé fyrstur sveitarfélaga til þess að fá jafnlaunavottun og reki framsækna og metnaðarfulla stefnu í jafnréttismálum sem geri sveitarfélagið að heildstæðum brautryðjenda á sviði jafnréttismála
Haraldur L. Haraldsson bæjarstjór tók á móti verðlaununum fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar ásamt hópi frá hinum ýmsu starfsstöðum bæjarins og fulltrúum í bæjarráði sem fer með jafnréttismál sveitarfélagsins.
„Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum og það var sannarlega ánægjulegt að uppfylla þær kröfur sem lagðar eru fram samkvæmt jafnlaunastaðlinum fyrst sveitarfélaga,“ er haft eftir Haraldi í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
Starfshópurinn sem stýrði innleiðingunni var skipaður af Andra Ómarssyni verkefnastjóra, Berglindi Guðrúnu Bergþórsdóttur mannauðsstjóra, Haraldi Eggertssyni verkefnastjóra og Lúvísu Sigurðardóttur gæðastjóra.
Druslugangan fékk einnig sömu verðlaun í dag fyrir mikilvægt grasrótarstarf sem hefur haft afgerandi áhrif á samfélagið og opnað umræðuna um kynferðisofbeldi.