fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirHafnarfjarðarbær greiðir eigendum ónýtra hesthúsa milljónir án þess að bera skyldu til...

Hafnarfjarðarbær greiðir eigendum ónýtra hesthúsa milljónir án þess að bera skyldu til þess

Eigendum hesthúss á Hlíðarenda við Kaldárselsveg, landnr. 121309, hafa verið veittar bætur fyrir eignir sínar þrátt fyrir skýr ákvæði í samningum um að húsin skyldu að ákveðnum tíma liðnum, þegar skipulag krefðist þess, fjarlægð á kostnað eigenda.

Þann 9. apríl 2018 var öllum hesthúsaeigendum í Hlíðarenda sent bréf þar sem tilkynnt var að framkvæmdir við gerð nýs Kaldárselsvegar myndu hefjast innan fárra mánaða og að framkvæmdir myndu fara fram á og við umrædd hús. Þá var tilkynnt að afnotum að landinu yrði hætt eigi síðar en 1. september 2018 og að þá skyldi einnig vera búið að fjarlægja mannvirki af lóðinni, sbr. 5. gr. lóðarleigusamnings. Eigendur hesthúsanna mótmæltu bréfinu og óskuðu eftir viðræðum um lausn í málinu.

Í framhaldi af viðræðum við eigendur urðu eigendur og Hafnarfjarðarbær ásáttir um að Hafnarfjarðarkaupstaður greiði hverjum kr. 1.500.000.- í bætur umfram skyldu, án viðurkenningar á ábyrgð sveitarfélagsins, með eingreiðslu til lúkningar á málinu, auk  lögmannskostnaðar.

Þá gerir sveitarfélagið ekki kröfu um að mannvirki verði fjarlægð af lóðinni heldur muni Hafnarfjarðarbær kosta niðurrif húsanna sjálfur. Árið 2018 var áætlað að kostnaður við niðurrif yrði um 10 til 12 milljónir, skv. uppýsingum Sigríðar Kristinsdóttur, bæjarlögmanns og sviðsstjóra stjórnsýslusviðs Hafnarfjarðarbæjar.

Í samkomulaginu segir „umfram skyldu“ sem þýðir í raun að bærinn telur sig ekki hafa neinar skyldur til greiðslu til handa eigendum né að þeir eigi bótakröfu á hendur bænum. Þess vegna er greitt umfram skyldu.

Í fasteignaskrá kemur fram að 11 eignir eru á þessu landnúmeri, frá 49 til 80 m² að stærð.

Kostnaður Hafnarfjarðarbæjar, umfram skyldu, er því gríðarlegur, 16,5 millj. kr. í bætur, 10-12 millj. kr. vegna niðurrifs auk lögfræðikostnaðar.

Ekki hafa fengist nein svör frá Hafnarfjarðarbæ um það hvers vegna bærinn er að greiða þessa upphæð án skyldu umfram það að komast hjá málaferlum.

Fjarðarfréttir hefur upplýsingar um að fyrrum eigandi að einni eigninni seldi núverandi eiganda á mjög lágu verði þar sem vitað var um þau ákvæði að eigendum bæri að rífa húsin á sinn kostnað. Þeim upplýsingum var komið til bæjarstjóra. Þrátt fyrir þetta var viðkomandi greiddar bætur umfram skyldur.

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2