Löng saga um aðkomu Hafnarfjarðarkaupstaðar að byggingu knatthúss í Kaplakrika virðist nú vera á enda.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti kaup á knatthúsinu Skessunni á fundi sínum 26. febrúar sl. á 1.190.000.000 kr. Er það eingöngu knatthúsið sjálft en undanskilið er viðbyggingin sem hýsir m.a. anddyri og búningsklefa.
Valdimar Víðisson, bæjarstjóri, sagði í svari til Fjarðarfrétta að ekki væri farið í kaup á þeirri fasteign í þessari umferð.
Hafnaði að byggja Skessuna fyrir 1,2 milljarða árið 2018
Árið 2018 bauð Hafnarfjarðarbær út byggingu á knatthúsinu og byggði kostnaðaráætlunina á tölum frá FH en hún nam 720 milljónum kr. Lægsta tilboðið hljóðaði upp á 1.237 milljónir og hætti Hafnarfjarðarbær við þar sem upphæðin var talin of há.
Kaupverðið er greitt við yfirtöku á áhvílandi skuldum, 695 milljónum kr., 141,6 milljónir kr. eru greiddar við afsal og 20 milljónir verða greiddar þegar gefin hafa verið út vottorð vegna öryggis- og lokaúttektar hússins sem FH sér um.
Hafnarfjarðarbær hafði þegar greitt inn á kaupverð hússins 333,4 milljónir kr. án þess að fyrir lægi neinn kaupsamningur.
Kvaðir á FH
Skv. viðauka við kaupsamninginn er FH óheimilt að selja og/eða veðsetja fasteignir, mannvirki og byggingarétt í sinni eigu sem staðsettar eru á lóð L121342 [Kaplakrika]. Slíkri kvöð skal þinglýst á allar eignir á lóðinni. Jafnframt er FH óheimilt að ráðast í nokkrar framkvæmdir á lóðinni nema með samþykki bæjarins.
Strangari reglur um fjármál íþróttafélaga
Umræðan um fjármál FH hafa verið þess valdandi að kallað hefur verið eftir meira eftirliti og aðhaldi á fjármálum íþróttafélaganna.
Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum 20. febrúar s.l. breytingar á ákvæðum og ný ákvæði í þjónustu- og rekstrarsamninga við íþróttafélög í Hafnarfirði.
Skýrari kröfur verða gerðar til þeirra íþróttafélaga sem njóta 35 milljóna kr. framlaga eða meir frá sveitarfélaginu á ári og áhersla lögð á gagnsæi og ábyrga meðferð fjármuna félaganna.
Flestir gildandi samningar hafa verið nær óbreyttir frá árinu 2016. Vinna er þegar hafin við endurskoðun á þessum þjónustu- og rekstrarsamningum.
Íþróttafélag skal tryggja að fjárreiður félagsins séu í samræmi við gildandi reglugerð ÍSÍ um fjárreiður á hverjum tíma. Jafnframt skal aðalstjórn félags setja reglur um fjárreiður og meðferð fjármuna sem gerðar skulu opinberar á vef félagsins. Í slíkum reglum skal meðal annars kveðið á um hvers konar fjárskuldbindingar deilda skuli leggja til samþykktar hjá aðalstjórn félagsins. Einnig að aðalstjórn félagsins hafi eftirlit með fjárhag deilda og annarra starfseininga félagsins.
Hafnarfjarðarbær skal jafnframt vera heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í aðalstjórn félags. Áheyrnarfulltrúinn skal hafa rétt til setu á fundum aðalstjórnar og hafa þar málfrelsi.