fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirHafnarfjarðarbær kaupir Strandgötu 8-10 á 350 milljónir kr.

Hafnarfjarðarbær kaupir Strandgötu 8-10 á 350 milljónir kr.

Allt á huldu um störf starfshóps um húsnæði stjórnsýslu Hafnarfjarðarkaupstaðar

Hafnarfjarðarbær kaupir alla húseignina Strandgötu 8-10 af Íslandsbanka fyrir 350 milljónir kr. en Íslandsbanki leigir síðan húsnæði á 1. hæð sem hýsir bankaútibúið og kjallara til 31. mars 2025.

Þetta var samþykkt á fundi bæjarráðs í gær og vísað til staðfestingar í bæjarstjórn. Ekki er gert ráð fyrir þessum kaupum í nýlegri fjárhagsáætlun og þarf því að koma til viðauki við fjárhagsáætlunina og taka féð af öðrum fjárfestingum eða útgjöldum eða gera ráð fyrir hærri tekjum.

Þá var samþykkt að leigja af Íslandsbanka 180,8 m² skrifstofuhúsnæði á 2. hæð Linnetsstígs 3 til 31. mars 2027.

Leiguverð í báðum leigusamningunum er 2.000 kr. á m² en Íslandsbanki greiðir ekki leigu vegna kjallara.

Litlar upplýsingar um áform

Þó ekkert komi fram í fundargerð um ástæðu kaupanna þá má rekja það beint til starfshóps um húsnæði stjórnsýslu Hafnarfjarðarkaupstaðar því í fundargerð bæjarráðs segir: Úr fundargerð starfshóps um húsnæði stjórnsýslunnar 30. maí 2023: “Starfshópurinn samþykkir framlögð samningsdrög og vísar til bæjarráðs til samþykktar.”

Starfshópur um húsnæði stjórnsýslunnar hefur verið starfandi en engar upplýsingar um niðurstöður hópsins hafa verið birtar opinberlega, hvorki fundargerðir né niðurstöður. Skipað var í hópinn 28. júlí 2022 og í honum sitja: Valdimar Víðisson, Sigrún Sverrisdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Lovísa Traustadóttir og Rósa Guðbjartsdóttir. Með hópnum starfa sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs.

Verkefni hópsins er:

  • Að greina og skoða stöðu húsnæðismála stjórnsýslu Hafnarfjarðarkaupstaðar.
  • Skoða meðal annars óbreytta staðsetningu, byggingu nýs ráðhúss eða byggingu annars húsnæðis fyrir ráðhús.
  • Vinna að tillögu um framtíðarstaðsetningu stjórnsýslu Hafnarfjarðarkaupstaðar m.a. út frá fyrirliggjandi greiningum á húsnæðiskostum frá Mannviti og rýmisgreiningu ASK arkitekta á Strandgötu 8-10 sem unnar voru fyrir starfshóp um húsnæði stjórnsýslunnar á síðasta kjörtímabili.

Skv. heimildum Fjarðarfrétta er stefnt að því að færa sem mest að stjórnsýslu Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem ekki er nú þegar í ráðhúsinu, í þetta húsnæði en miklar breytingar þarf að gera og kostnaðarsamar áður en það verður. Hugmyndir eru líka uppi um að nýta jarðhæðina undir fjölskyldusvið og vonir manna um aukið verslunar- og þjónusturými í miðbænum minnka þá mikið.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2