fbpx
Fimmtudagur, janúar 23, 2025
HeimFréttirHafnarfjarðarbær mun kynna FH drög að kaupsamningi á Skessunni í næstu viku

Hafnarfjarðarbær mun kynna FH drög að kaupsamningi á Skessunni í næstu viku

Jón Ingi Hákonarson (C) segir nauðsynlegt að íþróttafélög sem ítrekað fara fram á styrki af almannafé, sýni aga í fjármálum

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í dag að Fimleikafélagi Hafnarfjarðar verði kynnt drög að kaupsamningi á knatthúsinu Skessunni og viðauka við væntanlegt samkomulag í næstu viku.

Engar nánari upplýsingar eru birtar í fundargerð ráðsins.

Áður hefur komið fram að Hafnarfjarðarbær hefur greitt háar upphæðir til FH vegna byggingar á knatthúsinu og að tekið hefur verið frá fé í fjárhagsáætlun vegna hugsanlegra kaupa.

„Flýtir og óvönduð stjórnsýsla er ein af ástæðum þess að illa fór“

Jón Ingi Hákonarson, fulltrúi Viðreisnar í bæjarráði, telur að Hafnarfjarðarbær eigi að fara sér að engu óðslega þegar kemur að björgunaraðgerðum til handa FH í kjölfar fjárhagsóreiðu vegna byggingu og reksturs Skessunnar.

Segir hann í bókun að flýtir og óvönduð stjórnsýsla sé ein af ástæðum þess að illa fór og því geti flýtir og óvönduð stjórnsýsla ekki verið hluti lausnar á þessum vanda.

„Það er ekki hlutverk bæjarsjóðs Hafnarfjarðar að bjarga lánardrottnum félagsins og greiða skuldir félagsins upp í topp án þess að aðstoða félagið við að semja við lánardrottna um verulega lækkun skulda,“ og segir eðlilegt að lánastofnanir og lánardrottnar beri sína ábyrgð á áhættusömum lánveitingum.

Ekki hlutverk bæjarsjóðs að bjarga bönkum

Vill hann að bæjaryfirvöld aðstoði FH við að leita nauðasamninga við lánardrottna sína með það að markmiði að lækka skuldir félagsins um helming að minnsta kosti og skilyrða fjárhagsaðstoð bæjarins við þann gjörning. Segir hann  það ekki hlutverk bæjarsjóðs að bjarga bönkum.

Nauðsynlegt að íþróttafélög sem ítrekað fara fram á styrki af almannafé, sýni aga í fjármálum

„Það er nauðsynlegt að íþróttafélög sem ítrekað fara fram á styrki af almannafé, sýni aga í fjármálum. Ef engar ráðstafanir verða gerðar til að tryggja viðunandi vinnubrögð við fjármálastjórn þá er viðbúið að stutt verði í næsta ákall um björgunaraðgerðir. Því er nauðsynlegt að endurskipuleggja fjármál FH í heild sinni og setja strangari skilyrði um eftirlit og reglulega upplýsingagjöf,“ segir Jóni Ingi í bókuninni.

„Nýlega sendi félagið frá sér yfirlýsingu um að eftir kaup bæjarins á knatthúsinu þá verði FH skuldlaust og eigið fé 1,5 milljarður. Í ljósi þessa er full ástæða til að skoða hvort félagið geti sjálft leyst fjárhagsvanda vegna knatthússins.“

Segir hann nauðsynlegt að þetta mál verði skoðað í stærra samhengi og bærinn ætti ekki að leggja fram fjármuni vegna þessa máls, án þess að áður verði gerð úttekt af óháðum aðila á fjármálum félagsins í heild. Einnig að lagt verði mat á stöðu félagsins í heild, fjármálastjórn, möguleika á lækkun skulda og fyrirkomulag fjármálastjórnar til framtíðar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2