fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirHafnarfjarðarbær sýknaður af kröfum ÞG-verktaka vegna byggingar Skessunnar

Hafnarfjarðarbær sýknaður af kröfum ÞG-verktaka vegna byggingar Skessunnar

Hafnarfjarðarkaupstaður var þann 16. febrúar sl. sýknaður af öllum kröfum ÞG verktaka ehf. sem krafðist 247 milljónir kr. og til vara 50 milljónum kr.

Með útboðsgögnum, dags. 16. janúar 2018, sem unnin voru af hálfu VSB verkfræðistofu, óskaði stefndi eftir tilboði í hönnun og byggingu knatthúss í fullri stærð í Kaplakrika, auk jarðvinnu og uppsteypu stoðveggja vegna æfingavalla norðan við knatthúsið. Ekki var
í gögnunum vísað til samþykktrar fjárhagsáætlunar um framkvæmdakostnað en tekið fram að stefndi áskildi sér rétt til þess að hafna öllum tilboðum. Ætlaði Hafnarfjarðarbær að greiða 250 milljónir á árinu 2018 og eftirstöðvar í janúar 2019.

Tilboð voru opnuð 26. mars 2018 og átti ÞG verktakar ehf. lægsta tilboð af þremur, 1.237.461.404 kr. Í fundargerð við opnun tilboða kom fram að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar gerði ráð fyrir 720 millj. kr. í húsið.

Fjárhagsáætlunin var hins vegar ekki byggð kostnaðaráætlun, heldur tölum frá FH sem aftur hefði byggst á reynslutölum frá byggingu Risans sem er knatthús í hálfri stærð.

Í maí 2018 var bjóðendum tilkynnt að ákveðið hefði verið að hafna öllum tilboðum vegna forsendna sem Hafnarfjarðarbær hafði gefið sér að leggja 720 millj. kr. í verkið.

Kærunefnd útboðsmála taldi Hafnarfjarðarbæ skaðabótaskyldan

Þessari ákvörðum kærðu ÞG verktakar til kærunefndar útboðsmála sem hafnaði því að ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar yrði felld úr gildi en féllst á að Hafnarfjarðarbæ væri skaðabótaskyldur gagnvart ÞG verktökum vegna kostnaðar við að undirbúa tilboð sitt og taka þátt í útboðinu.

Var einkum vísað til þess að stefndi hefði ekki gert sérstaka kostnaðaráætlun, og að kostnaðarviðmið sem stefndi hefði stuðst við hafi komið frá FH og miðast við byggingu annars húss, sagt samskonar, án þess að upplýst hafi verið nánar um forsendur. Jafnframt yrði ekki annað ráðið en að kostnaðarviðmið stefnda hafi ekki gert ráð fyrir kostnaði við jarðvinnu og uppsteypu stoðveggja.

Tveimur kröfum hafnað og einni vísað frá dómi

Í málflutningi lögmanns stefnanda var sett fram varakrafa, sem ekki getur um í stefnumálsins, um að stefnda verði gert að greiða stefnanda 47.901.732 krónur, með sömu vöxtum og dráttarvöxtum og um getur í aðalkröfu málsins. Byggist sú fjárhæð á framlagðri matsgerð. Af hálfu stefnda var kröfunni mótmælt þar sem hún rúmaðist ekki innan aðalkröfunnar, enda væri ekki byggt á því í stefnu að matsgerðin væri sönnun fyrir tjóni stefnanda.

Bæði aðalkrafa og varakrafa stefnanda byggist á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna hagnaðarmissis eða tapaðrar framlegðar. Bótafjárhæð aðalkröfunnar er rökstudd í stefnu með því að stefnandi hafi ætlað sér 20% framlegð af heildartilboðsfjárhæðinni. Af öðrum gögnum málsins verður ætlað að stefnandi hafi miðað við 30% í efndabætur. Þá kom fram í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir dómi að útgangspunktur hans fyrir áætluðum hagnaði almennt væri 10%. Engin gögn liggja fyrir í málinu til stuðnings kröfunni. Er bótakrafan í aðalkröfu því með öllu ósönnuð og verður þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af aðalkröfu málsins.

Í skýrslu Sigurðar Haraldssonar, sviðsstjóra hjá Hafnarfjarðarbær, fyrir dóminum, sem sæti átti í framangreindum vinnuhóp á vegum stefnda, kom fram að hann hefði í tengslum við vinnu hópsins fengið sundurliðaða kostnaðaráætlun FH frá þáverandi bæjarstjóra, þar sem sundurliðuð var m.a. jarðvinna, burðarvirki o.þ.h. Hann hafi hins vegar ekki séð þá kostnaðaráætlun frá FH sem nú lægi fyrir í málinu. Í skýrslu Viðars Halldórssonar fyrir dóminum kom fram að hann hefði sent þáverandi bæjarstjóra mörg og ítarleg kostnaðarmöt, það síðasta hafi verið sundurliðað kostnaðarmat um heildarkostnað að fjárhæð 720 milljónir króna. Það hafi verið uppsett með svipuðum hætti og það kostnaðarmat sem síðar lá til grundvallar samningi FH og stefnda um framvindu byggingar hússins.

Dómurinn telur jafnframt að ekki verði byggt á framlagðri matsgerð sem mögulegum grundvelli ákvörðunar um bætur til handa stefnanda. Þótt erfiðleikum kunni að vera bundið að færa nákvæmar sönnur á meint tjón í aðstæðum sem þessum, þá hefði stefnanda verið í lófa lagið að leggja fram sundurliðuð gögnum útreikning þess tilboðs sem hér liggur undir, varðandi kostnað og áætlaða framlegð úr verkinu. Það gerði hann ekki, og því verður ekki byggt á mögulegu tjóni út frá þeim forsendum sem matsgerðin byggist á. Með vísan til framangreinds verður stefndi sýknaður af varakröfu stefnanda. Í málflutningi lögmanns stefnanda var varakröfu þeirri sem varað finna í stefnu málsins breytt, og krafan sett fram til þrautavara, með þeim hætti að í stað kröfu um greiðslu á kostnaði við þátttöku í útboðinu og undirbúning tilboðs, að mati dómsins, auk tiltekinna vaxta og dráttarvaxta, var nú krafist viðurkenningar á rétti stefnanda til skaðabóta úr hendi stefnda vegna kostnaðar stefnanda við þátttöku í útboðinu og undirbúnings tilboðs. Kröfunni var mótmælt af hálfu stefnda en af hálfu stefnanda er á því byggt að krafan rúmist innan aðalkröfu málsins.

Að mati dómsins er um nýja kröfu að ræða sem rúmast ekki innan marka kröfugerðar aðalkröfunnar, enda er í aðalkröfu krafist skaðabóta vegna missis hagnaðar eða framlegðar, en í umræddri kröfuvar krafist greiðslu, nú viðurkenningar á útlögðum kostnaði. Um þann kostnað hafa engin gögn verið lögð fram. Með vísan til þessa og 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 er þrautvarakröfu stefnanda um viðurkenningu á rétti stefnanda til skaðabóta úr hendi stefnda vegna kostnaðar stefnanda við þátttöku í útboðinu og undirbúnings tilboðs, vísað frá dómi.

Með vísan til niðurstöðu málsins og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda, 930.000 krónur í málskostnað.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum, Inga Tryggvasyni héraðsdómara og Gústaf Vífilssyni byggingarverkfræðingi.

Ekki gerð athugasemd við ófullkomna kostnaðaráætlun

Dómurinn gerði því ekki athugasemd við að Hafnarfjarðarbær hafi ekki gert sjálfstæða kostnaðaráætlun, heldur hafi notað tölur frá FH en líklegt má telja að hún hefði verið nákvæmari og ekki hefði komið til útboðs eða að gert hefði verið ráð fyrir annarri fjárhæð í fjárhagsáætlun.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2