fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirHafnarfjarðarbær vill áframhaldandi samstarf um undirbúning virkjunar í Krýsuvík

Hafnarfjarðarbær vill áframhaldandi samstarf um undirbúning virkjunar í Krýsuvík

Viljayfirlýsing um samstarf við HS orku undirritað

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti þann 28. mars 2019 að setja á fót starfshóp um
framtíðarnýtingu á Krýsuvíkursvæðinu. Hlutverk hópsins var að móta stefnu og gera tillögur um heildaruppbyggingu í Krýsuvík, hvaða starfsemi og þjónusta skuli gera ráð fyrir að verði þar í framtíðinni. Í starfshópinn voru skipaðir: Skarphéðinn Orri Björnsson, formaður, Ágúst Bjarni Garðarsson, Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, Sverrir Jörstad Sverrisson og Karólína Helga Símonardóttir. Með hópnum starfaði Helga Stefánsdóttir, forstöðumaður framkvæmda- og rekstrardeildar á umhverfis- og skipulagssviði.

Hagur Hafnarfjarðar

Hópurinn skilaði af sér í nóvember 2021 þar sem kom fram að hagur Hafnarfjarðar af uppbyggingu á svæðinu fælist m.a. í að mikil tækifæri væru til uppbyggingar á ferðaþjónustu, orkutengdri starfsemi í iðnaði, líftækni og landbúnaði, auðlindagjaldi af virkjaðri orku og þátttöku Hafnarfjarðarbæjar í kolefnisjöfnun Íslands.

Horft var til Krýsuvíkurbjargs, „Krýsuvíkurþorpsins“, Seltúns, skógræktar og kolefnisbindingar og virkjunar á svæðinu.

Skýrslu hópsins má sjá hér.

Viljayfirlýsing undirrituð

Á bæjarráðsfundi 22. september sl. samþykkti bæjarráð að vísa tillögu að viljayfirlýsingu um samstarf við HS orku um rannsóknir og nýtingu ferskvatns og jarðhita í Krýsuvík til samþykktar í bæjarstjórn.

Í henni kemur fram að Krýsuvík er verðmætt útivistar- og ferðamannasvæði og búi auk þess yfir einum vænlegasta kosti sem til er til framtíðaruppbyggingar hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu og styrkingar á afhendingaröryggi hennar, en Hafnarfjarðarbær er eigandi Krýsuvíkur.

HS Orka hf., sem rekur tvö orkuver á Reykjanesi, hefur yfir fjögurra áratuga reynslu af uppbyggingu á fjölnýtingu auðlindastrauma í Auðlindagarði HS Orku. Auðlindastraumarnir eru m.a. gufa, koldíoxíð, jarðsjór og ylsjór sem nýttir eru til grænna orkulausna, ræktunar, eldis og matvælaiðnaðar auk ferðamennsku. Auk þess aflar HS Orka ferskvatns og framleiðir heitt vatn og rafmagn fyrir veitur sveitarfélaga á Suðurnesjum. HS Orka hf hefur rannsóknarleyfi Orkustofnunar í Krýsuvík til 31. október 2025.

Hafnarfjarðarbær og HS ráku saman um skeið félagið Suðurlindir til að halda utan um samstarf þeirra um rannsóknir og hugsanlega nýtingu auðlinda í landi Krýsuvíkur. Félagið var síðar lagt niður og við tók samstarfsyfirlýsing sem þáverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar og forstjóri HS undirrituðu 30. mars 2006.

Mikilvægt að halda samstarfi áfram

Hafnarfjarðarbær og HS orka telja mikilvægt að halda áfram samstarfi um rannsóknir og hugsanlega nýtingu auðlinda í landi Krýsuvíkur án þess þó að það komi niður á náttúru eða aðdráttarafli svæðisins sem útivistar- og ferðamannasvæði. Aðilar eru því sammála um eftirfarandi:

  • Að vinna áfram að hugmyndum um nýtingu auðlinda á svæðinu sem, auk öflunar jarðhita og ferskvatns, fælist í uppbyggingu á vistvænni ferðaþjónustu og orkutengdri starfsemi og hvernig þetta samræmist opinberum áherslum og áformum innanlands og alþjóðlega um græna iðngarða, hringrásarhagkerfi, áherslum Sameinuðu þjóðanna auk markmiða um minnkun kolefnislosunar og kolefnisbindingu.
  • Að meta áhrif af starfsemi orkuvers og hvernig best megi staðsetja það og fella að aðstæðum á svæðinu og einkennum þess.
  • Að hafa að leiðarljósi að náttúrusérkenni og menningarminjar njóti sín sem best og öllu raski á svæðinu verði haldið í lágmarki.
  • Að hafa til hliðsjónar, eða taka mið af, reynslu af uppbyggingu og rekstri Auðlindagarðs HS Orku auk annarra dæma erlendis sem innanlands gætu verið leiðarljós.
  • Að kynna fyrir almenningi og hagsmunaaðilum möguleika svæðisins og afmarkaðra hluta þess.
  • Að vinna sameiginlega að því að bæta aðstöðu á svæðinu, fegra og bæta umhverfið og útbúa fræðsluefni tengt svæðinu sem nýst geti í kynningarstarfi.
  • Að vinna sameiginlega að öðrum málum sem stuðla að jákvæðum áhrifum á svæðinu.

Til að geta staðið við rannsóknaráætlun og vinna ofangreindu brautargengi munu Hafnarfjarðarbær og HS orka koma á samningi aðila um heimild til rannsókna og nýtingar  auðlindaréttinda, „nýtingarsamningi“.

Bora djúpa rannsóknarholu á næsta ári

M.a. er fyrirhugað að bora djúpa rannsóknarholu til staðfestingar nýtanlegrar jarðhitaauðlindar í Krýsuvík. Borunin er áformuð á næsta ári, árið 2023.

Kostnaður sem til fellur hjá hvorum um sig vegna viljayfirlýsingar þessarar og alls kostnaðar í tengslum við frekari samningsgerð er greiddur af þeim sem til stofnar.

Yfirlýsingin, sem lýsir markmiðum og sameiginlegum skilningi aðila en er á engan hátt skuldbindandi,  gildir til loka rannsóknartímabils, 31. október 2025, eða skv. samkomulagi aðila.

Hvað vilja Hafnfirðingar?

Málið hefur lítið sem ekkert verið kynnt bæjarbúum og öðrum orkufyrirtækjum hefur ekki verið boðið að borðinu.

Krýsuvíkurbærinn og Krýsuvíkurkirkja við Bæjarfell. Það sem nefnt er Krýsuvíkurþorpið í niðurstöðum vinnuhópsins er þó ekki þar sem Krýsuvíkurbærinn var, heldur þar sem byggt var upp þegar metnaðarfullar hugmyndir um mjólkurframleiðslu voru uppi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2