Nú eru aðeins nokkrir dagar eftir í söfnun til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands undir merkjum Mottumars.
Keppnin er í formi einstaklingskeppni og liðakeppni og hefur söfnunin gengið mjög vel og þegar búið að safna um 7 milljónum kr.
Samhliða söfnuninni er hin árlega Skeggkeppni Mottumars en yfirskegg er einkenni keppninnar. Verðlaun í þeirri keppni verður veitt 2. apríl. n.k.
Andri Fannar í 3. sæti
Hafnfirðingurinn Andri Fannar Guðmundsson er sem stendur í 3. sæti keppninnar og hefur þegar safnað 300.000 kr. en setti markið mun lægra í byrjun. Nú í mars eru 10 ár frá því að Andri Fannar lá inni á Landspítalanum og var að hefja lyfjameðferð eftir að hafa greinst með eistnakrabbamein. Hann heldur upp á þessi tímamót með því að taka þátt í Skeggkeppni Mottumars og vill þannig leggja starfi Krabbameinsfélagsins lið.
Hvetur hann fólk til að styðja við söfnunina. Söfnun hans má styrkja hér.
Guðni er í fyrsta sæti
Hafnfirðingurinn Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarfrétta, er í fyrsta sætinu og hefur þegar safnað 464.500 kr. af 500.000 kr. markmiði. Hann greindist sjálfur með blöðruhálskrabbamein fyrir rúmu ári síðan og þekkir eins og Andri Fannar hvað góður stuðningur aðila eins og Krabbameinsfélagsins er.
Styðja má söfnun Guðna hér.
Þá er Hafnfirska liðið Guðnason í 3. sæti keppninnar og hafa þegar safnað samtals 789.485 kr.
Sjá má nánar um Mottumars átakið á mottumars.is og söfnunina á safna.krabb.is