Magnús Gauti Úlfarsson úr BH og Ingi Darvis Rodriguez úr Víkingi léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í borðtennis í Íþróttahúsinu við Strandgötu í dag. Magnús Gauti var ríkjandi Íslandsmeistari en þeir félagar hafa æft og keppt saman í Noregi sl. ár.
Skráðir keppendur voru 155 frá 15 félögum sem er mun meiri þátttaka en undanfarin ár. Leikið var við góðar aðstæður í Íþróttahúsinu við Strandgötu sem Badmintonfélag Hafnarfjarðar hefur nú til umráða. Innan BH er hin öfluga borðtennisdeild sem náði glæsilegum árangri um helgina.

Viðureign þeirra var mjög spennandi, Ingi Darvis vann fyrstu lotuna og Magnús Gauti næstu. En Ingi Darvis var sterkari í þeim síðustu og hampaði Íslandsmeistaratitlinum eftir glæsilega frammistöðu.
Agnes sigraði 4-0 eftir jafnar lotur
Agnes Brynjarsdóttir úr Víkingi og Aldís Rún Lárusdóttir úr KR áttust við í úrslitaleik í meistaraflokki kvenna. Töluverður aldursmunur er á þeim og á Aldís marga Íslandsmeistaratitla að baki. Þrátt fyrir glæsilega frammistöðu Aldísar og jafnar lotur fór það svo að Agnes sigraði í öllum lotunum og stóð uppi sem Íslandsmeistari.

Hafnfirskur sigur í tvenndarleik
Magnús Gauti Úlfarsson og Sól Kristínardóttir Mixa úr BH urðu Íslandsmeistarar í tvenndarleik og var þetta þeirra fyrsti titill og fyrsti titill BH í tvenndarleik. Þau sigruðu mæðginin Ástu M. Urbancic, KR og Jóhannes Bjarka Urbancic Tómasson, BH 3-1 (11-2, 7-11, 11-1, 12-10) í úrslitaleik. Í 3.-4. sæti urðu Íslandsmeistarar síðustu þriggja ára Aldís Rún Lárusdóttir og Davíð Jónsson, KR og Stella Karen Kristjánsdóttir og Magnús Jóhann Hjartarson, Víkingi.

Hafnfirskur sigur í tvíliðaleik karla

Birgir Ívarsson og Magnús Gauti Úlfarsson úr BH sigruðu Magnús Jóhann Hjartarson og Inga Darvis Rodriguez úr Víkingi í úrslitum í tvíliðaleik karla.
Daði Freyr Guðmundsson / Davíð Teitsson Víkingi og Skúli Gunnarsson / Davíð Jónsson KR urðu í 3.-4. sæti.
Hafnfirskur sigur í tvíliðaleik kvenna
Harriet Cardew og Sól Kristínardóttir Mixa úr BH sigruðu Agnesi Brynjarsdóttur og Stellu Karen Kristjánsdóttur úr Víkingi í úrslitaleik í tvíliðaleik kvenna
Auður Tinna Aðalbjarnardóttir / Aldís Rún Lárusdóttir KR og Sandra Dís Guðmundsdóttir / Alexía Kristínardóttir Mixa BH urðu í 3. – 4. sæti.
Sól Íslandsmeistari í 1. flokki kvenna

Sól Kristínardóttir Mixa úr BH var sigursæl á mótinu og auk sigurs í tvíliðaleik kvenna og tvenndarleik sigraði hún Kristínu Ingibjörgu Magnúsdóttur úr KR í úrslitaleik í 1. flokki kvenna.
Ársól Clara Arnardóttir KR og Sandra Dís Guðmundsdóttir BH urðu í 3.-4. sæti.
Úrslit í 1. flokki karla

Eiríkur Logi Gunnarsson KR sigraði Pétur Marteinn U Tómasson úr BH í úrslitaleik í 1. flokki karla. Gestur Gunnarsson KR og Matiss Meckl Akri urðu í 3.-4. sæti.
2. flokkur kvenna

Berglind Anna Magnúsdóttir KR sigraði Þuríði Þöll Bjarnadóttur KR í úrslitum í 2. flokki kvenna en Lára Ívarsdóttir og Guðrún Gestsdóttir KR urðu í 3.-4. sæti.
2. flokkur karla

Elvar Pierre Kjartansson KR sigraði Reyni Georgsson HK í úrslitaleik í 2. flokki karla.
Guðjón Tómasson og Jóhannes Kári Yngvason KR urðu í 3.-4. sæti.
Hér má sjá myndir frá mótinu og fleiri bætast við á morgun.