Hamarinn, ungmennahús Hafnarfjarðar fékk Hvatningarverðlaun Samfés fyrir verkefnið sitt „Liggur þér eitthvað á hjarta?“ sem snýst um að veita ungu hafnfirsku fólki greiða og skjóta þjónustu að ráðgjöfum frá Berginu headspace, Samtökunum 78 og sálfræðiþjónustu.
Sex verkefni voru valin úr miklum fjölda frábærra verkefna og tilnefninga. Verkefni Hamarsins var eitt þeirra og þykir verkefnið vera öðrum til eftirbreytni og hvatning til góðra verka.
Mikil eftirspurn eftir þjónustu Hamarsins
Frá og með 1. febrúar á þessu ári hefur Bergið headspace verið með um 40 viðtöl í Hamrinum og sálfræðingar Hamarsins verið vel nýttir. Oftar en ekki þá hittir unga fólkið ráðgjafann frá Berginu fyrst sem svo leiðir þau áfram í frekari úrræði eins og Stígamót eða til sálfræðinga Hamarsins.
Hægt er að bóka viðtöl á www.bergid.is og www.samtokin.is og taka fram í athugasemdum þá ósk að fá ráðgjöfina í Hamrinum. Ef óskað er eftir að hitta sálfræðing beint, þá er haft samband við Möggu Gauju á netfangið mgm@hafnarfjordur.is, DM á FB eða insta eða í síma 664 5551.
Hamarinn er fyrir allt ungt fólk með alls konar áhugamál
Hamarinn er ungmennahús fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára í gömlu skattstofunni að Suðurgötu 14 sem starfar eftir gildum jafnréttis, vináttu og vellíðunar. Í Hamrinum er mjög góð aðstaða fyrir viðburði og er ungt fólk hvatt til að halda tónleika, myndlistasýningar, stunda hugleiðslu og íhugun eða að spila Dungeons og Dragons langt fram á kvöld í húsnæðinu á þeirra eigin forsendum. Í Hamrinum er alltaf kósý stemning og tilvalið að kíkja í pool, horfa á þætti, tefla, grípa í gítar, spila eða bara vera til og spjalla. Hamarinn er í virku samstarfi við Rauða krossinn og er með skipulagt félagsstarf fyrir ungt fólk á flótta og ungt fólk af erlendu bergi brotnu. Í Hamarinn er allt ungt fólk velkomið og er starfsfólk boðið og búið til aðstoðar með allt það sem liggur ungu fólki Hafnarfjarðar á hjarta, bæði á íslensku og ensku.
Um Hvatningarverðlaun Samfés
Hvatningarverðlaun Samfés eru veitt á aðalfundi samtakanna ár hvert. Markmið þeirra er að hvetja og vekja athygli á því öfluga starfi sem fer fram í félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum um land allt. Við val er haft til hliðsjónar að verkefnið sé öðrum til eftirbreytni og hvatning til góðra verka. Mikill fjöldi frábærra verkefna var tilnefndur til hvatningarverðlauna 2021.
Sex verkefni hlutu Hvatningarverðlaun Samfés 2021:
- Ungmennahúsið Hamarinn – Liggur þér eitthvað á hjarta?
- Hinsegin vika Tjarnarinnar
- Sérstuðningur í félagsmiðstöðinni Zelzíus
- Orkudrykkjafræðsla Fjörheima
- Líkamsvirðing á Akureyri – Klúbbaval Félak vann að verkefninu Líkamsvirðing Akureyri í tilefni Barnamenningar
- Félagsmiðstöðvastarf án aðgreiningar – forstöðumenn félagsmiðstöðva í Breiðholti