Harpa Ósk Valgeirsdóttir hefur tekið við sem skátahöfðingi og var henni vel fagnað á fjölsóttu Skátaþingi sem haldið er á Bifröst nú um helgina.
„Ég vil gera skátastarfið aðgengilegt öllum,” segir Harpa og þar vísar hún m.a. til verkefna um að gera börnum af erlendum uppruna auðveldara að sækja skátastarf, sem og til fjölgunar skátafélaga á landsbyggðinni. Hún segir að með skýrari dagskrárgrunni sem var kynntur á skátaþingi sé einnig skref stigið til að gera starfið aðgengilegra.
Stærsta breytingin sem var kynnt er nýtt aldursbil í dagskránni, sk. Hrefnuskátar fyrir börn 5–7 ára og þar taka skátarnir þátt með foreldrum sínum, samhliða fjölskylduskátastarfi. Harpa Ósk hefur góða reynslu af fjölskylduskátastarfi en hún tekur þátt í slíku með dóttur sinni.
Bjóðum eldri skáta velkomna til verkefna
Harpa Ósk hefur verið virk í skátastarfi frá unga aldri, en hún segir að það sé ekki forsenda fyrir þátttöku fullorðinna í skátastarfi. Margir hafi komið inn í skátastarfið í gegnum starf barna sinna og haldið áfram. Harpa hvetur eldri skáta sem tóku sér hlé frá skátastarfi til að hafa samband við sitt skátafélag því það séu mörg áhugaverð verkefni sem þarfnast eldhuga.
„Við bjóðum allra eldri skáta velkomna til verkefna,” segir Harpa Ósk. Verkefnin eru næg og fjölbreytt hvort heldur hjá Bandalagi íslenskra skáta eða hjá skátafélögunum. „Áherslur okkar eru að auka gæði skátastarfsins, gefa fleiri börnum kost á þátttöku, efla fræðslu skátaforingjanna og bjóða fleiri velkomna til verkefna. Með þessum áherslum vonumst við til að skátahreyfingin jákvæð áhrif á sitt samfélag og stuðli að bættum heimi,” segir Harpa.
Hafnfirðingur meðal stjórnarmanna
Tekur Harpa við af Mörtu Magnúsdóttir sem var yngsti skátahöfðinginn sem starfað hafði á Íslandi. Meðal stjórnarmanna er Hafnfirðingurinn Guðrún Stefánsdóttir.