Haukar urðu í kvöld Íslandsmeistarar kvenna í körfuknattleik 2018 er liðið sigraði Val í hreinum úrslitaleik, 74-70 fyrir framan vel stemmda áhorfendur.

Fyrri hálfleikur var gríðarlega jafn og skiptust liðin á að hafa yfirhöndina en munurinn ávallt lítill. Haukar gátu náð yfirhöndinni í lok fyrri hálfleiks en þess í stað hafði Valur yfirhöndina, 37-35.

En Haukastúlkur komu vel stemmdar úr búningsklefanum og skoruðu 14 stig í röð. Sigrún Björg Ólafsdóttir skoraði af því þrjár 3ja stiga körfur. Valur komst svo rólega inn í leikinn og munurinn var síðan aldrei mikill en Haukar ávallt með forystuna.

Gleðin var mikil í leikslok.

Lokamínúturnar voru æsispennandi og gátu Valskonur jafnað á lokasekúndunum en þriggja stiga skot þeirra geigaði og Helena Sverrisdóttir, besti leikmaður Hauka, skoraði úr víti og gulltryggði sigurinn og fjórða Íslandsmeistaratitil liðsins.

Helena Sverrisdóttir með fjölskyldu sinni í leikslok

Helena besti leikmaður úrslitakeppninnar

Helena var svo í leikslok útnefndur besti leikmaður úrslitakeppninnar en hún var með þrennu að meðaltali í úrslitakeppninni allri, með 20,8 stig, 12,5 fráköst, 10 stoðsendingar og samtals 32,5 framlagsstig að meðaltali í leik.

Helena Sverrisdóttir skoraði 21 stig og átti 19 fráköst og 10 stoðsendingar, Whitney Michelle Frazier 20/9 fráköst, Sigrún Björg Ólafsdóttir 11/5 stolnir boltar, Dýrfinna Arnardóttir 8, Þóra Kristín Jónsdóttir 7/6 fráköst og 5 stolnir boltar, Anna Lóa Óskarsdóttir 5 og Fanney Ragnarsdóttir 2.

Haukar urðu síðast íslandsmeistarar kvenna árið 2009

Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino’s Pizza, afhenti Jónasi Jónmundssyni, formanni KKD Hauka, eina milljón kr. í verðlaunafé fyrir sigurinn áður en bikarinn fór á loft.

Þjálfarar Hauka, Ingvar Guðjónsson og Bjarni Magnússon urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn en báðir höfðu þeir hlotið silfur sem þjálfarar Hauka, Ingvar fyrir tveim árum og Bjarni tvisvar, árin 2012 og 2014.

Íslandsmeistarar Hauka 2018

Sjá má myndir hér.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here