Haukar urðu í kvöld Íslandsmeistarar kvenna í körfuknattleik 2018 er liðið sigraði Val í hreinum úrslitaleik, 74-70 fyrir framan vel stemmda áhorfendur.
Fyrri hálfleikur var gríðarlega jafn og skiptust liðin á að hafa yfirhöndina en munurinn ávallt lítill. Haukar gátu náð yfirhöndinni í lok fyrri hálfleiks en þess í stað hafði Valur yfirhöndina, 37-35.
En Haukastúlkur komu vel stemmdar úr búningsklefanum og skoruðu 14 stig í röð. Sigrún Björg Ólafsdóttir skoraði af því þrjár 3ja stiga körfur. Valur komst svo rólega inn í leikinn og munurinn var síðan aldrei mikill en Haukar ávallt með forystuna.

Lokamínúturnar voru æsispennandi og gátu Valskonur jafnað á lokasekúndunum en þriggja stiga skot þeirra geigaði og Helena Sverrisdóttir, besti leikmaður Hauka, skoraði úr víti og gulltryggði sigurinn og fjórða Íslandsmeistaratitil liðsins.

Helena besti leikmaður úrslitakeppninnar
Helena var svo í leikslok útnefndur besti leikmaður úrslitakeppninnar en hún var með þrennu að meðaltali í úrslitakeppninni allri, með 20,8 stig, 12,5 fráköst, 10 stoðsendingar og samtals 32,5 framlagsstig að meðaltali í leik.
Helena Sverrisdóttir skoraði 21 stig og átti 19 fráköst og 10 stoðsendingar, Whitney Michelle Frazier 20/9 fráköst, Sigrún Björg Ólafsdóttir 11/5 stolnir boltar, Dýrfinna Arnardóttir 8, Þóra Kristín Jónsdóttir 7/6 fráköst og 5 stolnir boltar, Anna Lóa Óskarsdóttir 5 og Fanney Ragnarsdóttir 2.
Haukar urðu síðast íslandsmeistarar kvenna árið 2009
Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino’s Pizza, afhenti Jónasi Jónmundssyni, formanni KKD Hauka, eina milljón kr. í verðlaunafé fyrir sigurinn áður en bikarinn fór á loft.
Þjálfarar Hauka, Ingvar Guðjónsson og Bjarni Magnússon urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn en báðir höfðu þeir hlotið silfur sem þjálfarar Hauka, Ingvar fyrir tveim árum og Bjarni tvisvar, árin 2012 og 2014.

Sjá má myndir hér.