Héðinn Steingrímsson heldur áfram á sigurbraut á Íslandsmótinu í skák sem fram fer í Hraunseli við Flatahraun. Í sjöttu umferð í gær vann hann Hannes Hlífar Stefánsson með mjög góðri endatafltækni.
Héðinn hefur 5½ vinning. Guðmundur Kjartansson er hins vegar ekkert á því að sleppa honum langt frá sér og er aðeins hálfum vinningi á eftir Héðni. Baráttan virðist ætla að standa á milli Íslandsmeistaranna frá 2015 og 2014 en þeir munu mætast í lokaumferðinni á laugardaginn.
Dagur Ragnarsson er þriðji með 4 vinning eftir öruggan sigur á Bárði Erni Birkissyni.
Heimamaðurinn Sigurbjörn Björnsson stöðvaði sigurgöngu Björns Þorfinnssonar og er nú í 5. sæti af 11.
Eina jafntefli umferðarinnar gerðu Vignir Vatnar Stefánsson og Davíð Kjartansson.
Vignir Vatnar Stefánsson er yngstur keppenda, aðeins 14 ára gamall en hann er nú í 7.-8. sæti.
Keppt er við kjöraðstæður, bæði fyrir keppendur og áhorfendur í Hraunseli við Flatahraun. Frídagur er í dag en sjöunda umferð verður tefld á morgun, fimmtudag kl. 17. Keppni hefst einnig kl. 17 á föstudag en lokaumferðin hefst kl. 13 á laugardag.
Áhugafólk um skák er velkomið að mæta og fylgjast með.
1. Héðinn Steingrímsson (2562) 5½ v.
2. Guðmundur Kjartansson (2437) 5 v.
3. Dagur Ragnarsson (2320) 4 v.
4. Björn Þorfinnsson (2407) 3½ v.
5. Sigurbjörn Björnsson (2268) 3 v.
6. Hannes Hlífar Stefánsson (2566) 2½ v.
7.-8. Davíð Kjartansson (2389) og Vignir Vatnar Stefánsson (2334) 2 v.
9. Guðmundur Gíslason (2336) 1½ v.
10. Bárður Örn Birkisson (2162) 1 v.