Um kl. 16 í dag féll þrýstingur á heitu vatni efst í Setbergi og nokkru síðar fór vatn að streyma upp á götu í Hlíðarbergi, rétt innan við Holtaberg. Jókst rennslið stöðugt þar til stórt gat var komið í malbikið og vatn og möl sullaðist upp og gatan hvarf í gufu.
Skv. upplýsingum frá Veitum að bilun hafi upp í lokum við Kaplakrika og við það jókst þrýstingur í kerfinu. Talið er að það sé orsök þess að lagnir gáfu sig, ekki aðeins í Hlíðarbergi heldur einnig á Vesturgötu skammt frá Bungalowinu, á Öldugötu og við inntak á Hrafnistu. Tókst að laga það síðast nefnda fremur fljótt en um klukkustund leið þar til starfsmenn veitna komu í Hlíðarbergið og skrúfuðu fyrir, en dæluhús er á horni Hlíðarbergs og Holtabergs.
Íbúar vísuðu bílum frá og fundu til keilur til að loka götunni enda rann undan malbikinu og sjóðandi vatn rann niður götuna.
Um 19:30 var heitt vatn komið á í Hafnarfirði en heitavatnslaust var á hluta Öldugötu og í Setbergi.
Upp úr kl. 20 í kvöld var vatni hleypt á lagnir á Öldugötu en enn er heitavatnslaust í hluta Setbergi.
Viðgerð gæti staðið áfram til miðnættis eða frameftir nóttu en grafa þurfi götuna upp og síðan munu einhverjar lagfæringar þurfa að fara fram á götunni.
Vatn flæddi einnig inn í garða en íbúar beittu skóflum til að stoppa vatnsflóðið.