Núna í ár, í fyrsta sinn ákvað íþrótta- og tómstundanefnd að heiðra einstakling innan íþróttahreyfingarinnar fyrir frumkvöðlastarf og einstakan árangur. Um er að ræða íþróttamann sem nýverið lagði skóna á hilluna. Þessi íþróttamaður hefur verið fyrirmynd annarra og náð einstökum árangri á löngum keppnisferli sínum.
Fyrsti íþróttamaðurinn til að fá þessa viðurkenningu er Helena Sverrisdóttir.
Helena hóf ung að árum að stunda körfuknattleik í Haukum og fljótlega fór hún að
sýna að þar væri afar mikið efni á ferð. Meistaraflokkur kvenna í Haukum var endurreistur um aldamótin og fljótt lét Helena að sér kveða sem einn allra besti leikmaður liðsins þó hún væri aðeins 13 ára gömul. Haukar fór upp um deild fljótlega og tímabilið 2002-2003 léku Haukar og Helena í efstu deild. Helena var einn allra besti leikmaður deildarinnar og á því tímabili var hún fyrst valin í A- landsliðið 14 ára gömul. Á næstu árum leiddi hún endurreisn Hauka í efstu deild kvenna þar sem liðið varð óstöðvandi og vann alla titla sem voru í boði.
Eftir farsælan feril með Haukum fór hún í háskóla og lék með TCU háskólanum í Texas við góðan orðstír þar sem liðinu gekk vel. Er hún sú íslenska kona sem skorað hefur flest stig í bandaríska háskólaboltanum. Eftir fjögurra ára skólavist fór hún í atvinnumennsku í Evrópu og spilaði í Slóvakíu, Ungverjalandi og Póllandi. Lék hún í Euroleague með Good Angels Kosice frá Slóvakíu þar sem liðið fór alla leið í undanúrslit þessara sterkustu keppni Evrópu.
Eftir atvinnumannaferilinn kom Helena heim og lék með Haukum og hjálpaði liðinu að verða Íslandsmeistari 2018. Eftir það fór hún erlendis að keppa aftur og þá til Póllands. Kom hún heim á miðju tímabili og gekk til liðs við Val og vann titla með þeim. Eftir Valsdvölina kom hún aftur í Hauka og hefur hjálpað liðinu að vinna titla en liðið er búið að vinna bikarmeistaratitilinn síðustu þrjú tímabil.
Hún hefur oftast verið valin körfuknattleikskona ársins eða alls 12 sinnum. Hefur spilað flesta landsleiki allra kvenna með íslenska landsliðinu eða 81.