Tónskáldið og sellóleikarinn hafnfirski, Hildur Guðnadóttir, varð í nótt fyrsti Íslendingurinn til að hljóta hin eftirsóttu Óskarsverðlaun.
Hlaut hún verðlaunin fyrir tónlistina við kvikmyndina Joker og varð hún fjórða konan frá upphafi til að hljóta verðlaunin í flokki frumsaminnar kvikmyndatónlistar.
Hildur var hrærð yfir móttökunum sem hún fékk en þetta var fyrsta tilnefning sem Hildur hefur fengið til Óskarsverðlaunanna. Hún minntist á fjölskyldu sína, eiginmann sinn og besta vin, Sam Slater, móður sína og son sem öll voru með henni við afhendinguna í nótt.
„Við stúlkurnar, konurnar, mæðurnar, dæturnar sem heyra tónlistina ólga í sér, vil ég segja: Látið til ykkar heyra. Við þurfum að heyra raddir ykkar,“ sagði Hildur í lok hjartnæmrar þakkarræðu sinnar í nótt og uppskar mikil fagnaðarlæti.
Eru þessi verðlaun enn ein rósin í hnappagatið fyrir Hildi sem þegar hafði hlotið Golden Globe-verðlaunin og BAFTA-verðlaunin fyrir tónlistina í Joker og Grammy- og Emmy-verðlaunin fyrir tónlist sína í þáttunum Chernobyl.
Hér má sjá Hildi svara spurningum blaðamanna baksviðs eftir afhendinguna: