Hlaupahópur FH hefur um langt skeið haldið Bleika hlaupið til styrktar góðu málefni og oftast tengt krabbameini.
Í ár var hlaupið til styrktar Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Var söfnunin í nafni tveggja félaga í hlauphópnum sem höfðu greinst með krabbamein á starfsárinu.

Hlaupið var haldið 19. október og mættu hlauparar víða að úr öðrum hlaupahópum auk FH-inga. Fólk mætti í bleiku og setti nokkurn svip á bæinn þegar hlaupið var en hægt var að velja um mislangar hlaupaleiðir sem allar enduðu í Kaplakrika þar sem beið glæsilegt kökuhlaðborð í boði félaga í Hlaupahópi FH.
Í ár söfnuðust 350.000 kr. og afhentu fulltrúar Hlaupahóps FH, Ernu Magnúsdóttur, framkvæmdastýru Ljóssið táknræna ávísun því til staðfestingar í dag.

Var FH-ingunum kynnt viðamikil starfsemi Ljóssins að Langholtsvegi 43 í Reykjavík.
Á síðustu tíu árum hefur Hlaupahópurinn getað afhent tæpar 4 milljónir kr. í styrki til góðs málefnis og hafa fjölmargir lagt hlaupahópnum lið við söfnunina.